Hoppa yfir valmynd
1.11.2019
Skipt um slökkvibíl á Ísafjarðarflugvelli

Skipt um slökkvibíl á Ísafjarðarflugvelli

Rúmlega sex þúsund lítra slökkvibíl af gerðinni Man árgerð 2001 var ekið frá Reykjavíkurflugvelli á Ísafjarðarflugvöll í byrjun vikunnar þar sem hann verður framvegis í notkun. Slökkvibíllinn hefur verið í notkun á Reykjavíkurflugvelli en fær nú nýtt heimili fyrir vestan.

Slökkvibílnum, sem áður var notaður á Ísafjarðarflugvelli, var síðan ekið til Reykjavíkur þar sem hann verður yfirfarinn og síðan fluttur norður á Húsavíkurflugvöll.

Það var Valgeir Ólason, þjónustustjóri á Reykjavíkurflugvelli, ók slökkvibílnum til Ísafjarðar og tók myndirnar sem fylgja þessari frétt. Hann ók síðan slökkvibílnum sem ætlaður er á Húsavíkurflugvöll í bæinn.

Reykjavíkurflugvöllur fékk nýverið slökkvibíl frá Keflavíkurflugvelli og þá fór í gang þessi hringekja slökkvibíla en breytingin er kærkomin og eflir brunavarnir á viðkomandi flugvöllum til muna.