Hoppa yfir valmynd
18.11.2019
Skipulagsbreytingar hjá Isavia

Skipulagsbreytingar hjá Isavia

Stjórn Isavia hefur samþykkt að gerðar verði breytingar á skipulagi félagsins. Með þeim breytingum verður gerður aðskilnaður á milli ólíkra rekstrareininga þess. Áformað er að breytingarnar taki formlega gildi um áramótin.

Breytingarnar fela það í sér að flugvallasvið, sem rekur innanlandsflugvelli, og flugleiðsögusvið, sem sinnir flugleiðsöguþjónustu, færast í dótturfélög en rekstur Keflavíkurflugvallar verður eftir hjá móðurfélaginu Isavia. Undir flugleiðsögufélagið færast síðan Tern Systems, sem þróar og framleiðir hugbúnað fyrir flugleiðsöguþjónustu, og Suluk sem annast flugleiðsöguþjónustu í Grænlandi. Fríhöfnin verður áfram dótturfélag móðurfélagsins Isavia.

Sú ákvörðun stjórnar að setja hluta Isavia í dótturfélög er tekin á grundvelli þess að um eðlisólíkar rekstrareiningar er að ræða. Keflavíkurflugvöllur er rekinn í miklu og hörðu samkeppnisumhverfi en þar liggja stærstu viðskiptatækifærin og um leið lang mesta rekstraráhættan. Rekstur innanlandsflugvallanna er hins vegar að mestu háður framlagi frá íslenska ríkinu enda er um að ræða almenningssamgöngukerfi sem er í eigu ríkisins. Þá er rekstur flugleiðsöguþjónustu að stórum hluta á grundvelli milliríkjasamnings um yfirflug yfir Norður-Atlantshafið sem byggir á endurheimtukerfi kostnaðar (e. cost recovery system). Með breytingunum fær hver hluti starfseminnar sitt eigið vægi, sína stjórn og tækifæri til að innleiða mismunandi áherslur og markmið.

Stoðsvið Isavia verða áfram í móðurfélaginu. Eitt þeirra, þróun og stjórnun, verður á hinn bóginn lagt niður í núverandi mynd og verkefnin flutt á önnur svið. Þá verður nýtt stoðsvið stofnað sem annast stafræna þróun og upplýsingatækni. Skrifstofa forstjóra mun fá skilgreind verkefni.