Hoppa yfir valmynd
4.11.2016
Skoðun á þægilegra vegabréfa- og tolleftirliti ferðamanna til Bandaríkjanna

Skoðun á þægilegra vegabréfa- og tolleftirliti ferðamanna til Bandaríkjanna

Í dag var tilkynnt að Keflavíkurflugvöllur verður á lista bandarískra stjórnvalda yfir flugvelli þar sem mögulegt væri að taka upp bandaríska toll- og vegabréfaskoðun. Þetta þýðir að allt eftirlit sem jafnan hefur farið fram við komu til Bandaríkjanna getur mögulega farið fram á Keflavíkurflugvelli þannig að farþegar sæti ekki eftirliti eða tollskoðun við komu til Bandaríkjanna. Þetta fyrirkomulag kallast Preclearence á ensku og hefur m.a. verið við lýði á flugvellinum í Dublin á Írlandi frá árinu 2009 þar sem starfa bandarískir tollverðir sem sinna þessu eftirliti. Þar geta farþegar því flogið sem innanlandsfarþegar til flugvalla í Bandaríkjunum.
 
Margir aðrir í Evrópu hafa í hyggju að sækjast eftir að hafa þetta fyrirkomulag á sínum flugvöllum. Til dæmis er Arlanda flugvöllur í Stokkhólmi nýbúinn að skrifa undir samkomulag við bandarísk yfirvöld og stefna á að hefja þetta fyrirkomulag árið 2018. Í ljósi aukinnnar samkeppni í flugi yfir norður Atlantshaf er mjög jákvætt að Keflavíkurflugvöllur fái tækifæri til að vera hluti af þessu fyrirkomulagi.
 
Engin skuldbinding í ferlinu
Núna munu íslensk og bandarísk stjórnvöld ásamt Isavia hefja athugun á því hvort að þetta fyrirkomulag henti á Keflavíkurflugvelli, bæði vegna aðstæðna í flugstöðinni og hvort það samræmist íslenskri stjórnsýslu.  Einnig er eðlilegt er að skoða þetta fyrirkomulag í tengslum við þá uppbyggingu sem framundan er á Keflavíkurflugvelli. Þetta flókna ferli mun taka talsverðan tíma og er ekki skuldbindandi fyrir Isavia og íslensk stjórnvöld. Ef af verður þarf sérstakan milliríkjasamning milli íslenskra stjórnvalda og bandarískra. 
 
Isavia lítur svo á að það sé mikil viðurkenning í því fólgin að vera á þessum lista og sýnir  það traust sem Keflavíkurflugvöllur nýtur á alþjóðlegum vettvangi.
 
Tilkynning bandarískra yfirvalda: https://www.dhs.gov/news/2016/11/04/dhs-announces-11-new-airports-selected-possible-preclearance-expansion-following 
 
Hér eru upplýsingar um fyrirkomulagið í Dublin: https://www.dublinairport.com/at-the-airport/passenger-information/us-preclearance-facility