Hoppa yfir valmynd
11.6.2020
Spjallmenni sendir upplýsingar um flugferðir innanlands

Spjallmenni sendir upplýsingar um flugferðir innanlands

Farþegar sem fara í gegnum flugvellina í Reykjavík, á Akureyri, Egilsstöðum og Ísafirði geta nú fengið upplýsingar um bókuð flug send til sín í gegnum spjallmenni (chatbot) á Facebook Messenger. Farþegarnir geta fengið upplýsingar um flug sitt í rauntíma og er hvert skref í þeirra ferðalagi tíundað þar til lent er á áfangastað. Til að byrja með eru sendar upplýsingar um flugferðir Air Iceland Connect. Vonast er til að flugfélagið Ernir bætist síðan við.

Þjónustan er unnin í samvinnu við írska fyrirtækið Airchat sem nýtir gervigreind til að koma upplýsingunum til notenda. Þjónustan er sú sama og hefur verið í boði síðan 2018 fyrir farþega sem fara í gegnum Keflavíkurflugvöll. Fjöldi flugvalla í heiminum hafa nýtt sér slíka lausn með aukinni áherslu á stafræna þjónustu og gervigreind.

„Isavia hefur alltaf viljað veita farþegum greiðan aðgang að nauðsynlegum upplýsingum um ferðalagið þeirra og þá með eins einföldum hætti og hægt er,“ segir Sigrún Björk Jakobsdóttir, framkvæmdastjóri Isavia Innanlandsflugvalla, dótturfélags Isavia. „Það er skýr stefna félagsins að nýjasta stafræna tækni verði hluti af góðu ferðalagi okkar viðskiptavina og þessi breyting er mikilvægt skref í þeim efnum.“