Hoppa yfir valmynd
7.3.2018
Stækkuð suðurbygging Keflavíkurflugvallar vígð

Stækkuð suðurbygging Keflavíkurflugvallar vígð

 
Fjöldi gesta var viðstaddur vígslu á stækkaðri suðurbyggingu Keflavíkurflugvallar til norðurs fimmtudaginn 1. mars síðastliðinn. Stækkunin nemur um 7000 fermetrum. Framkvæmdirnar hófust árið 2016 og hefur nýja svæðið verið tekið í gagnið í áföngum frá því í maí í fyrra.
 
 
 
Meðal breytinga er að landamærasalurinn var stækkaður og 12 nýjar sjálfvirkar landamærastöðvar teknar í notkun. Þá var Saga Lounge hjá Icelandair færður upp á 3. hæð auk þess sem verslanir og veitingastaðir voru opnaðir á svæðinu.
 
 
Björn Óli Hauksson, forstjóri Isavia, sagði við athöfnina að með mikilli fjölgun farþega um Keflavíkurflugvöll frá árinu 2010, og þá sérstaklega í flugi til og frá Norður-Ameríku og Bretlandseyja, hefði skapast eftirspurn eftir fleiri verslunum og veitingastöðum í þessum hluta flugvallarins. Þá væri þörf fyrir meiri afköst á landamærunum. Framkvæmdirnar hefðu gengið vel og þakkaði hann öllum aðilum sem komu að þeim, þar á meðal hönnuðum, arkitektum og verktökum.
 
 
Ingimundur Sigurpálsson, formaður stjórnar Isavia, sagði við vígsluna að brýnt væri að fara af stað með varanlegar stækkanir á Keflavíkurflugvelli vegna þess að spáð væri enn frekari fjölgun farþega um flugvöllinn á næstu árum. Hann greindi frá því að stjórn Isavia hefði í síðasta mánuði samþykkt fyrsta áfanga uppbyggingaráætlunar fyrir Keflavíkurflugvöll til næstu fimm ára. Þar er meðal annars gert ráð fyrir að bjóða út framkvæmdir við byggingar fyrir nýjar farangursflokkurnar- og skimunarstöð austur af núverandi flugstöðvarbyggingu. Þá verði einnig boðin út áframhaldandi breikkun landgangs og bygging nýs landamæraeftirlits norður af flugstöðinni. Samanlagt nemi þessir framkvæmdaþættir rúmlega 30 milljörðum króna á næstu þremur árum.