Hoppa yfir valmynd
1.3.2011

Stærsta ferðasumar frá upphafi á Keflavíkurflugvelli

Allt stefnir í að ferðasumarið 2011 verði hið umfangsmesta á Keflavíkurflugvelli frá upphafi. Íslenskir flugrekendur bæta við flugflota sinn og hafa aldrei haft jafnmargar flugvélar í áætlunarflugi til og frá landinu. Margir nýir áfangastaðir eru í boði í sumar auk þess sem tíðni ferða til margra borga er aukin miðað við undanfarin ár. Einnig munu 13 erlend flugfélög halda uppi ferðum til Íslands í sumar og hafa þau aldrei verið fleiri. Ljóst er að sú mikla umfjöllun sem Ísland fékk í kjölfar gossins í Eyjafjallajökli vorið 2010 hefur komið Íslandi á alheimsferðakortið með rækilegum hætti.

Álagið á starfsemi Keflavíkurflugvallar mun aukast gríðarlega af þessum sökum. Síðastliðið sumar voru 14 – 15 farþegaflug afgreidd samtímis á háannatíma að morgni og síðdegis flesta daga vikunnar. Samkvæmt áætlun á komandi sumri verða þau að jafnaði 18 – 20. Búast má við að meðalaukning farþega á álagstíma í Flugstöð Leifs Eiríkssonar geti orðið á bilinu 500 – 700 manns miðað við síðastliðið sumar. Til þess að anna þessari miklu aukningu verður ráðist í nokkrar endurbætur á flugstöðinni til þæginda fyrir farþega. Afköst í vopnaleit verða aukin, vopnaleitarsalurinn stækkaður og sjálfsinnritunarstöðvum verður fjölgað í brottfararsal. Flugvallaryfirvöld, flugfélög og flugafgreiðsluaðilar vinna ötullega að samræmdum lausnum til aukins hagræðis við afgreiðslu og þæginda fyrir viðskiptavini sinna, þ.m.t viðræður um hvort að flugfélögin breyti brottfarartímum í einhverjum tilfellum.

Farþegar eru hvattir til þess að mæta mjög tímanlega fyrir flug næsta sumar svo forðast megi óþarfa tafir og streitu og valda jafnvel seinkun á eigin flugi eða missa af fluginu.