
Styrkjum úthlutað úr samfélagssjóði Isavia
Níu verkefni fengu styrk úr samfélagssjóði Isavia á dögunum. Verkefnin eru af fjölbreyttum toga en áhersla er lögð á umhverfismál, mannúðarmál, forvarnir, flugtengd málefni, listir, menningu og menntamál.Úthlutað er úr samfélagssjóðnum tvisvar á ári. Nokkur fjöldi umsókna barst sjóðnum en verkefnin sem fengu styrk eru eftirfarandi:
- Styrktarfélag einhverfra barna fékk styrk til að halda félagsfærninámskeið fyrir einhverf börn.
- Mæðrastyrksnefnd Reykjavíkur fékk styrk til starfseminnar en nefndin úthlutar mat og fatnaði til efnaminni fjölskyldna. Auk þess er nefndin með fermingaraðstoð og aðstoð fyrir börn til íþróttaiðkunar.
- Hjálparstarf kirkjunnar fékk styrk til starfseminnar. Hjálparstarfið úthlutar styrkjum til efnaminni fjölskyldna.
- Hollvinasamtök heilbrigðisþjónustu á Fljótsdalshéraði voru styrkt til kaupa á sónartæki til notkunar á Heilbrigðisstofnun Austurlands á Seyðisfirði.
- Unnur María Sólmundsdóttir hlaut styrk vegna Kennarinn.is. Kennarinn.is er gagnabanki með fallegu og aðgengilegu náms- og skipulagsefni fyrir leik- og grunnskóla. Efnið er unnið upp úr söngleikritum leikhópsins Lottu sem byggir á hlustun og skilningi.
- Félag Litháa á Íslandi hlaut styrk til skipulagningar ráðstefnunnar Vinabrúar. Vinabrú er samstarfsvettvangur móðurmálsskóla litháískra innflytjenda í Evrópu og er að þessu sinni haldin á Íslandi.
- Skógarmenn KFUM fengu styrk til byggingar nýs svefn- og þjónustuskála í Vatnaskógi.
- Harpa Lúthersdóttir hlaut styrk til forvarnarverkefnis gegn einelti. Harpa hyggst gefa öllum skólum landsins bekkjarsett af bókinni Má ég vera memm?
- Samtökin ´78 hlutu styrk til að efla faglegt starf með ungu fólki..
Isavia styrkir góð málefni á hverju ári eftir afmarkaðri stefnu sem er í samræmi við samþykkt stjórnar félagsins. Styrkirnir skiptast í þessa þrjá flokka: Styrktarsjóður Isavia hjá Landsbjörgu veitir styrki til björgunarsveita um allt land. Sveitirnar eru styrktar til kaupa á hópslysabúnaði og er sérstök áhersla lögð á björgunarsveitir nálægt flugvöllum og fjölförnum ferðamannastöðum. Styrktarsjóðir Isavia hjá HÍ og HR veita styrki til nemenda á meistara- og doktorsstigi sem vinna að lokaverkefnum tengdum flugi eða ferðaþjónustu. Háskólarnir annast úthlutun úr sjóðunum. Í gegnum samfélagssjóð leggur Isavia sitt af mörkum til þess að metnaðarfullt starf á ýmsum sviðum samfélagsins fái dafnað. Til að skerpa á málaflokknum hefur félagið lagt áherslu á: Forvarnarverkefni fyrir ungmenni, líknarmál, góðgerðarmál, umhverfismál og verkefni sem tengjast flugi.









