Hoppa yfir valmynd
30.5.2013
Styrktarsjóður Isavia: Afhending á Bíldudal

Styrktarsjóður Isavia: Afhending á Bíldudal

Arnar þór Arnarsson, Valdimar Ottósson, Gísli Ægir Ágústsson, Arnþór Hlynsson frá Kópi og Arnór Magnússon og Finnbjörn Bjarnason frá Isavia.

Björgunarsveitinni Kópi frá Bíldudal var boðið til móttöku á Bíldudalsflugvelli í gær, miðvikudag, þar sem formleg afhending fór fram á búnaði sem keyptur var fyrir framlag úr styrktarsjóði Isavia á nýliðnu ári. Búnaðurinn sem Kópur fékk var: Neyðarsendir, þurrbúningar, flísgallar, hjálmar, hanskar, vesti, skór og sokkar. Búnaðurinn mun nýtast sveitinni mjög vel, meðal annars vegna viðbúnaðar á sjó og í nágrenni Bíldudalsflugvallar. Áður hafa Kópur og Isavia gert með sér samkomulag um viðbúnað á sjó og eiga m.a. sameiginlegan björgunarbát.
 
Um Styrktarsjóð Isavia
Styrktarsjóður Isavia var stofnaður árið 2011 með það fyrir augum að efla hópslysaviðbúnað björgunarsveita Slysavarnarfélagsins Landsbjargar.  Sérstök áhersla hefur verið lögð á að styrkja sveitir nærri áætlunarflugvöllum Isavia til kaupa á tækjum og búnaði eða til þess að efla menntun og þjálfun björgunarsveitarmanna. Úthlutun úr Styrktarsjóði Isavia  fer fram árlega og  nam úthlutun á nýliðnu ári 12 milljónum króna til 18 björgunarsveita. Á þessu ári hefur verið tilkynnt um ráðstöfun á átta milljónum til 23 björgunarsveita.
 
Upphaflega átti verkefnið að vera til þriggja ára en hefur nú verið framlengt um tvö ár og áherslan útvíkkuð með víðtækari skírskotun m.a. með hliðsjón af vinsælum ferðamannastöðum.  Þá verður horft til þess að úthlutanir taki mið af heildstæðu mati á hópslysaviðbúnaði mismunandi svæða, sem og fjölþættu notagildi búnaðarins. Með þessu vill Isavia hjálpa björgunarsveitum að takast á við aukið álag sem fylgir auknum straumi ferðamanna til landsins.