Hoppa yfir valmynd
27.2.2013
Styrktarsjóður Isavia: afhending búnaðar á Keflavíkurflugvelli

Styrktarsjóður Isavia: afhending búnaðar á Keflavíkurflugvelli

Tvær björgunarsveitir á Suðurnesjum fengu afhentan björgunarbúnað sem keyptur var fyrir styrk úr styrktarsjóði Isavia síðdegis í dag, miðvikudaginn 27. febrúar. Björgunarsveitin Suðurnes fékk styrk til kaupa á öflugum tjaldhitara sem er hluti af stórum og velútbúnum björgunarbíl þeirra. Björgunarsveitin Ægir, Garði fékk 500.000 króna styrk til kaupa á börum og sjúkrabúnaði svo hægt væri að breyta bíl í þeirra eigu í svonefndan B-sjúkrabíl. Ómar Sveinsson, framkvæmdastjóri Keflavíkurflugvallar afhenti búnaðinn formlega og þakkaði sveitunum fyrir þeirra mikilvæga þátt í viðbúnaðarkerfi flugvallarins.

Styrktarsjóður Isavia var stofnaður árið 2011 með það fyrir augum að efla hópslysaviðbúnað björgunarsveita Slysavarnarfélagsins Landsbjargar. Björgunarsveitirnar gegna lykilhlutverki í flugslysaáætlunum og hópslysaviðbúnaði landsins og allra hagur að björgunarsveitir séu sem best búnar.
 
Sérstök áhersla er lögð á að styrkja sveitir nærri áætlunarflugvöllum Isavia til kaupa á tækjum og búnaði eða til þess að efla menntun og þjálfun björgunarsveitarmanna. Úthlutun úr styrktarsjóði Isavia fer fram árlega og nam úthlutunin á nýliðnu ári 12 milljónum króna til 18 björgunarsveita. Stefnt er að því að veita átta milljónum króna úr sjóðnum á þessu ári.
 
Ómar Sveinsson, framkvæmdastjóri Keflavíkurflugvallar og Pétur G. Sigurðsson hjá Björgunarsveitinni Suðurnes.
 
Fulltrúar Ægis í Garði þakka fyrir sig.