Hoppa yfir valmynd
27.8.2013
Styrktarsjóður Isavia endurnýjar samstarf við Slysavarnafélagið Landsbjörg með aðild Ríkislögreglustjóra

Styrktarsjóður Isavia endurnýjar samstarf við Slysavarnafélagið Landsbjörg með aðild Ríkislögreglustjóra

Haraldur Johannessen, Ríkislögreglustjóri, Björn Óli Hauksson, forstjóri Isavia og Jón Svanberg Hjartarson, framkvæmdastjóri Slysavarnafélagsins Landsbjargar undirrita samninginn.

Isavia, Slysavarnafélagið Landsbjörg (SL) og Ríkislögreglustjóri (RLS) undirrituðu í dag samning til tveggja ára um 16 milljóna króna úthlutun úr Styrktarsjóði Isavia til eflingar á hópslysaviðbúnaði. Á síðustu þremur árum hefur 21 milljón króna verið úthlutað til björgunarsveita um allt land til kaupa fullkomnum björgunarbúnaði meðal annars bátum, bakbrettum, neyðarsendum og skyndihjálparbúnaði auk úrbóta á húsnæði og tækjum. Að tveimur árum liðnum munu björgunarsveitir landsins því samtals hafa fengið 37 milljónir króna úr sjóðnum. Styrktarsjóðurinn er framlag Isavia til þess að efla viðbúnað við flugslysum og hópslysum á landinu og til að bregðast við álagi sem fylgir auknum ferðamannastraumi.

Að þessu sinni verða styrkirnir veittir á víðari grunni en síðastliðin þrjú ár sem sjóðurinn hefur verið starfræktur. Áhersla verður lögð á fjölfarin ferðamannasvæði og þá landshluta þar sem helst mætti bæta hópslysaviðbúnað. Sérstaklega verður horft til umsókna björgunarsveita þar sem sýnt er fram á samstarf viðbragðseininga og heildstæða nálgun á hópslysaviðbúnað en almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra leikur mikilvægt hlutverk við samræmingu áætlana og framkvæmd.

Björn Óli Hauksson forstjóri Isavia segir að ávinningur félagsins af verkefninu byggist á gagnkvæmum stuðningi og sé tvíþættur:

  • Björgunarsveitir SL gegni lykilhlutverki í öllum flugslysaáætlunum á áætlunarflugvöllum Isavia og því hagur að þær séu ávallt sem best í stakk búnar að takast á við verkefnið.
  • Björgunarsveitir gegni líka lykilhlutverki í öllum hópslysaviðbúnaði landsins og því hagur landsmanna og erlendra gesta sem um landið ferðast að björgunarsveitir SL séu ávallt sem best búnar til þess að takast á við hópslys.

Um Styrktarsjóð Isavia
Styrktarsjóður Isavia var stofnaður árið 2011 með það fyrir augum að efla hópslysaviðbúnað björgunarsveita Slysavarnafélagsins Landsbjargar. Stjórn sjóðsins er skipuð tveimur fulltrúum frá Isavia, einum frá SL og einum frá RLS. Allar björgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar geta sótt um framlag úr sjóðnum. Forsendur úthlutunar eru að fénu sé varið til þess að efla viðbúnað vegna hópslysa, t.d. til menntunar, búnaðar-  eða tækjakaupa.  Í sérstökum tilfellum er heimilt að styrkja önnur verkefni en vegna hópslysaviðbúnaðar en ekki er miðað við að fénu sé varið til almenns reksturs.