Hoppa yfir valmynd
18.2.2019
SUMARÁÆTLUN KEFLAVÍKURFLUGVALLAR 2019

SUMARÁÆTLUN KEFLAVÍKURFLUGVALLAR 2019

Mesta framboð á flugsætum verður til og frá Kaupmannahöfn að því er fram kemur í ferðaáætlunum flugfélaganna sem fljúga um Keflavíkurflugvöll á komandi sumri. Framboð á sætum til og frá Kaupmannahöfn eykst um níu prósent frá því sem var í fyrra. Heildarframboð á flugsætum minnkar þó – fer úr 7,9 milljón flugsætum á sumaráætlun í fyrra niður í 7,1 milljón flugsæta í ár. Það er samdráttur upp á 10 prósent. Hafa ber þó í huga að þessi flugáætlun, sem og aðrar, geta tekið breytingum hjá flugfélögunum.

 

Þessar tölur gilda fyrir tímabilið apríl til október 2019 og gildir samanburðurinn fyrir sama tímabil í fyrra. Sumartímabilið samkvæmt skilgreiningu Alþjóðasamtaka flugfélaga, IATA (International Air Transport Association), nær frá lok mars ár hvert til loka októbermánaðar.

Icelandair áformar að auka sætaframboð sitt yfir sumartímann um 14% nú í ár frá því sem var í fyrra. Áætlanir gera ráð fyrir að framboð sæta hjá WOW air dragist saman um 44%. Hjá öðrum flugfélögum sem fljúga um  Keflavíkurflugvöll verður samanlagt um 4% samdráttur. Mismunandi er þó hvort félögin eru að minnka sætaframboð eða auka það. Wizz air eykur sætaframboð sitt um 15%, SAS um 22% og Finnair um 10% á meðan easyJet minnkar framboðið um 11%, British Airways um 23% og Norwegian um 14%

 

Samkvæmt áætlunum félaganna fyrir næsta sumar er útlit fyrir að flugsætum til og frá Bandaríkjunum fækki um 29% og til og frá Bretlandi um 22%. Sætaframboð til og frá Þýskalandi eykst hins vegar um 10%, til og frá Noregi og Sviss um 16% og Kanada um 18%. Helsta skýringin á minna framboði bandarískra flugsæta er fækkun áfangastaða í Bandaríkjunum og færri flugsæti til og frá Bretlandi geta skýrst af minna sætaframboði hjá bæði easyJet og British Airways í sumar.

Sætaframboð eykst á leiðum til og frá Kaupmannahöfn, eða um 9% milli ára. Þá eykst framboðið um 16% til og frá Ósló. Það dregst saman um 18% til og frá JFK-flugvelli í New York og um 9% til og frá París.

Hér má lesa nánar um sumaráætlun á Keflavíkurflugvelli 2019