Hoppa yfir valmynd
19.9.2023
Tæplega 2,8 milljónir farþega í sumar

Tæplega 2,8 milljónir farþega í sumar

Sumarið var aldeilis frábært á Keflavíkurflugvelli en alls fóru 2.781.543 farþegar um flugvöllinn í júní, júlí og ágúst. Það eru 16,9% fleiri farþegar en sömu mánuði árið áður. Farþegaspá gerði ráð fyrir 2.822.490 farþegum þessa þrjá mánuði, þannig að frávik frá spá voru 1,5%. Mesti fjöldi farþega á einum degi var sunnudaginn 30. júlí, þegar 35.341 fóru um völlinn. Til samanburðar var annasamasti dagur ársins 2022 fimmtudaginn 28. júlí það ár, þegar 30.248 fóru um völlinn.

Alls voru farþegaflugshreyfingar (lendingar og brottfarir) 17.906 talsins, en voru 14.923 á sama tímabili í fyrra, sem þýðir 20% aukning milli ára. Flestar farþegaflugshreyfingar voru fimmtudaginn 3. ágúst, eða 215, en árið 2022 voru þær flestar 183 fimmtudaginn 18. ágúst.

Þegar allar flugvélahreyfingar eru skoðaðar, voru þær alls 20.666 þessa þrjá mánuði og flestar voru þær 13. júlí, eða 247 talsins.

Samkvæmt tölum frá Ferðamálastofu voru brottfarir erlendra farþega frá Keflavíkurflugvelli 790.000 þessa þrjá mánuði og alls voru brottfarir Íslendinga 171.000 talsins.

Anna Björk Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri þjónustu og rekstrar hjá Isavia

„Það er afskaplega ánægjulegt að sjá hversu margir hafa farið um Keflavíkurflugvöll í sumar. Við höfum tekið á móti fjölda farþega og hefur verið töluvert að gera hjá okkar öfluga starfsfólki,“ segir Anna Björk Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri þjónustu og rekstrar hjá Isavia. „Sem dæmi um umfang umferðarinnar þá fóru ríflega 35 þúsund farþegar um völlinn 30. júlí síðastliðinn. Það var fjölmennasti dagurinn hjá okkur þetta sumarið. Nú erum við að hefja spennandi vetur á Keflavíkurflugvelli og búa okkur undir sumarið 2024 sem verður hafið áður en varir með rísandi sól.“