Hoppa yfir valmynd
20.1.2017

Tengsl Keflavíkurflugvallar við atvinnuuppbyggingu í sjávarútvegi

Isavia og Kadeco héldu á dögunum opinn fund í Hljómahöll í Reykjanesbæ þar sem til umræðu voru tækifæri til atvinnuuppbyggingar í sjávarútvegi á nærsvæði Keflavíkurflugvallar. Keflavíkurflugvöllur sem hluti af flutningakerfinu til og frá landinu er í lykilhlutverki þegar kemur að áframhaldandi þróun og vexti í útflutningi ferskra sjávarafurða horft til framtíðar. Þannig er Keflavíkurflugvöllur mjög mikilvægur hlekkur í tveimur stærstu gjaldeyrisskapandi greinum landsins, ferðaþjónustu og sjávarútvegi.
 
Björn Óli Hauksson forstjóri Isavia opnaði fundinn fór yfir þróunina sem orðið hefur á vöruflutningum með flugi frá Keflavíkurflugvelli og aukningu á flutningi á ferskum fiski beint á markað á þeim fjölmörgu áfangastöðum sem flogið er beint til frá Keflavíkurflugvelli. Hann sýndi hversu mikil og hröð aukning hefði orðið í fjölda áfangastaða í heilsársflugi og benti á tækifærin sem væru til staðar hvað það varðaði. Hann sagði einnig frá því hvernig þróunaráætlun Keflavíkurflugvallar var breytt til þess að koma til móts við þarfir sjávarútvegsins í sambandi við flutning á ferskum fiski með farþegaflugi.
 
Í samantekt um helstu niðurstöður fundarins, sagði Kjartan Eiríksson framkvæmdastjóri Kadeco að líkt og þekkt væri erlendis kæmi stór hluti af hagvexti þjóða til af þeim ólíku starfsgreinum sem nýttu sér nálægð við flugvelli. Góðar tengingar væru nauðsynlegur hluti af nútíma alþjóðaviðskiptum. Hraði og sveigjanleiki skiptu sífellt meira máli. Þetta væri augljóst af þeim virðisauka sem skapast hefði af ferskfiskútflutningi, þar sem hægt er að bregðast við kröfum markaðarins hverju sinni, jafnvel samdægurs. Sá virðisauki myndi ekki skapast nyti flugsins ekki við. Þær óvenju góðu flugtengingar sem Íslendingar búi við, gjörbreyti í raun landfræðilegri stöðu okkar. Það eigi líka við um aðra alþjóðlega geira eins og til dæmis í rekstri gagnavera á Ásbrú, þó þeirra starfsemi sé ekki flugtengd með beinum hætti. Þau líti á stuttan ferðatíma og tíðni ferða t.d. á milli Keflavíkurflugvallar og London sem mikinn kost við sína staðsetningu.
 
Eftirfarandi fluttu erindi á fundinum:
 
Bjarki Vigfússon, hagfræðingur hjá Íslenska sjávarklasanum kynnti niðurstöður rits sem ber yfirskriftina Verstöðin Ísland – Hagræðing og landfræðileg samþjöppun í íslenskum sjávarútvegi 1993-2013. Bjarki fjallaði um þær breytingar sem orðið hafa í íslenskum sjávarútvegi síðasta aldarfjórðunginn með sérstakri áherslu á þá hagræðingu og landfræðilegu samþjöppun sem einkennt hefur fiskvinnsluna á Íslandi frá upphafi 10. áratugar síðustu aldar. Hann sýndi hversu mikill hluti botnfiskverkunar hefur togast í átt að suðvesturhorni landsins og tengdi það meðal annars við útflutning á ferskum fiski um Keflavíkurflugvöll. Að sama skapi hefur verkun uppsjávarfisks að miklu leyti færst á Austurlandið. Bjarki sagði nú mikilvægara að vera nálægt neytandanum heldur en auðlindinni hvað sjávarútveginn varðar. Það fæst meðal annars með því að vera nálægt mikilvægustu flutningaleiðunum.
Verstöðin Ísland er aðgengileg á vef Sjávarklasans
 
Mikael Tal Grétarsson forstöðumaður útflutnings hjá Icelandair Cargo hélt erindi undir yfirskriftinni Fiskur á flugi – tækifæri og þróun. Hann talaði um mikilvægi Keflavíkurflugvallar og lýsti því hvernig staðsetning Íslands væri í lykilhlutverki fyrir sjávarútveginn, mitt á milli tveggja markaðssvæða. Hann hélt áfram um Keflavíkurflugvöll:
„Vanmetið er hversu mikill virðisauki hefur skapast í sjávarútvegi út af Keflavíkurflugvelli og þá sérstaklega í tengslum við leiðarkerfi Icelandair. Þetta er ein af ástæðunum fyrir því að íslenskur sjávarútvegur er leiðandi í heiminum.“ Samkvæmt Mikael er mikill meirihluti útflutnings Icelandair Cargo ferskur fiskur. Hann sagði mikinn verðmun á frosnum fiski og ferskum og að fyrir ferskan, ófrosinn fisk fengist allt að 40% hærra verð á markaði í Bandaríkjunum. Mest eftirspurn eftir ferskum fiski er á Bandaríkjamarkaði og Ísland er með flestar flugtengingar til Bandaríkjanna af öllum Norðurlöndunum. Tækifærin til vaxtar eru einnig mikil að mati Mikaels og hann sagði gríðarleg tækifæri hvað varðaði fiskeldi og flutning á ferskum eldisfiski á markaðssvæðin í Norður-Ameríku og Evrópu. „Ég tel að þetta sé virkilega undirmarkaðssett vara og það liggi gríðarlega mikil tækifæri í þessum geira.“
Þá sagði Mikael mikinn áhuga hjá kaupendum að vita hvert kolefnissporið er af íslenskum fiski sem fluttur er með flugi á markaði erlendis. Hann tók dæmi af fiski sem fluttur er frá Íslandi til Frakklands með flugi miðað við fisk sem ekið er frá Noregi til Frakklands. Niðurstöður er að kolefnissporið er mun minna af íslenskum fiski ef horft er til veiða og flutnings heldur en hinum norska. Sérstaklega er sá fiskur sem fluttur er með farþegaflugi með lágt kolefnisspor.
 
Dr. Jón Þrándur Stefánsson, yfirmaður greiningar hjá Markó Partners veitti innsýn í markaði og þróun í útflutningi á ferskum fiski. Jón fór yfir markaðina og sagði stærstu kaupendur á ferskum þorskflökum og bitum vera Frakkland, Bandaríkin, Bretland og Belgía. Mismunandi er hvernig fiskurinn er fluttur en til að mynda fer stór hluti þorsksins sem fluttur er til Frakklands með skipum en allur fiskur sem fer til Bandaríkjanna fer með flugi vegna lengri vegalengdar. Hins vegar er yfir 50% af ferskum fiski sem fluttur er á markað erlendis fluttur með flugi vegna þess hve miklu máli skiptir að koma fiskinum hratt á markað. Mesta aukningin hefur verið í flutningi á ferskum fiski til Bandaríkjanna undanfarið og eru Bandaríkin nú sú þjóð sem fær mest af ferskum fiski flugleiðina.
 
Jón sagði mikla virðisaukningu í ferskum fiski sem fluttur er út og að framleiðendur á Íslandi hefðu mikla þekkingu á markaðnum og tækni til vöruþróunar. Með vinnslutækninni í dag væri til dæmis hægt að skera fiskinn sérstaklega fyrir hvert markaðssvæði nákvæmlega eftir kröfum viðskiptavinanna á hverjum stað. Jón var sammála því að mikil tækifæri lægju í fiskeldi og taldi að ef allar beiðnir sem nú hafa komið fram um fiskeldi yrðu samþykktar yrði útflutningur á eldisfiski um 40-50 þúsund tonn eftir fimm ár.
 
Birgir Össurarson sölu- og markaðsstjóri Ice fresh Seafood fjallaði um mikilvægi flugsins fyrir útflutning á ferskum fiski.
 
Birgir sagði að Ice Fresh Seafood, sem er í eigu Samherja, ynni að markaðssetningu á fiski Samherja og meginafurðirnar væru þorskur, lax og bleikja. Hann tók dæmi af bleikju sem fyrirtækið hefur algerlega þurft að kynna fyrir neytendum. Þau hafa staðið fyrir mikilli kynningu í Bandaríkjunum fyrir verslunarkeðjum, veitingastöðum og neytendum með þeim árangri að íslensk bleikja er orðin mun þekktari vara.
Hann sagði það jákvætt að Samherji hefur alla virðiskeðjuna þar til varan fer í flug og hann sagði flugið gríðarlega mikilvægt og skipta sköpum varðandi það að koma hágæða vöru á markað. Verðmætasköpunin væri mun meiri með fluginu. Hann sagði markaðssvæðum líka fjölga í takt við fjölgun heilsársflugleiða frá Keflavíkurflugvelli og að það væri í raun farþegaflugið sem byggi til þessa nýju markaði fyrir sjávarútveginn. Þannig ynnu ferðaþjónustan og sjávarútvegurinn fullkomlega saman í að stórauka útflutningstekjur þjóðarinnar.
Birgir ræddi um áhrif sjómannaverkfallsins sem hann sagði því miður geta verið mikil. Hann sagði mismunandi eftir markaðssvæðum hvernig kaupendur tækju í verkföll. Frakkar væru til dæmis vanari verkföllum en Bandaríkjamenn sem skyldu ekki að verkföll gætu haft svona mikil áhrif og að ekkert væri gert í því. Birgir sagði mikilvægt þegar deilan leysist að hefja strax vinnu við að fá hilluplássið sem þeir höfðu í búðunum, eða komast aftur á matseðla veitingastaðanna.