Hoppa yfir valmynd
30.6.2013
Thomas Cook flýgur milli Brussel og Íslands í sumar

Thomas Cook flýgur milli Brussel og Íslands í sumar

Laugardaginn 29. júní klukkan 18:25 lenti fyrsta flug Thomas Cook Belgium á Keflavíkurflugvelli. Félagið mun í sumar stunda áætlunarflug á milli Íslands og Brussel, en þaðan geta Íslendingar flogið áfram til fjölda áfangastaða í Evrópu, Tyrklands, Egyptalands, Túnis, Marokkó og Grænhöfðaeyja. Flogið verður tvisvar í viku, á mánudögum og laugardögum. Thomas Cook er eitt 17 flugfélaga sem fljúga til 70 áfangastaða frá Keflavíkurflugvelli í sumar.

Brusselflugvöllur bauð brottfararfarþegum upp á veitingar í tilefni dagsins auk þess sem flugvallarslökkviliðið í Brussel sprautaði heiðursboga yfir vélina áður en hún hélt til Íslands.

Thomas Cook Belgium hefur höfuðstöðvar á Brusselflugvelli og flýgur þaðan til fjölda áfangastaða í Evrópu. Félagið er hluti af Thomas Cook samsteypunni sem samanstendur auk Thomas Cook í Belgíu af Thomas Cook í Skandinavíu, Thomas Cook í Bretlandi og Condor í Þýskalandi.

Hægt er að bóka miða á www.thomascookairlines.com