Hoppa yfir valmynd
1.12.2022
Þriðja stærsta ár Keflavíkurflugvallar fram undan

Þriðja stærsta ár Keflavíkurflugvallar fram undan

Isavia hefur kynnt farþegaspá sína fyrir árið 2023. Þar er gert ráð fyrir að 7,8 milljónir farþega fari um Keflavíkurflugvöll á næsta ári sem er þriðji mesti fjöldi farþega um völlinn á einu ári frá upphafi. Þá er því spáð að 2,2 milljónir ferðamanna komi til Íslands árið 2023 en aðeins einu sinni áður hafa fleiri komið til landsins á einu ári eða 2,3 milljónir metárið 2018.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, opnaði fundinn og lagði áherslu á mikilvægi þess að styrkja innviði og umgjörð ferðaþjónustunnar í góðri samvinnu allra. Isavia fór einnig yfir hvernig flugvöllurinn verður þróaður með ábyrgum hætti á næstu árum í takt við þróun farþegafjölda og þarfir samfélagsins.

Þriðja stærsta árið frá upphafi

24 flugfélög munu fljúga með 7,8 milljónir farþega um Keflavíkurflugvöll á næsta ári sem verður það þriðja stærsta í sögu flugvallarins samkvæmt farþegaspánni. Hálfri milljón fleiri farþegar munu því fara um flugvöllinn en 2019. Hlutfall tengifarþega verður 27% sem er svipað og 2019 en nokkru minna en árið 2018 þegar hlutfall þeirra var tæp 40%.

Flugfélögin 24 verða með áætlunarflug til og frá 80 áfangastöðum í Evrópu og Norður-Ameríku, þar af 51 allt árið. Farþegaspáin gerir ráð fyrir að tæpar 2,2 milljónir erlends ferðafólks muni koma til Íslands um Keflavíkurflugvöll á árinu 2023.

Farþegaspá er unnin út frá upplýsingum um afgreiðslutíma sem flugfélög hafa tryggt sér og byggir á upplýsingum úr kerfum Isavia til viðbótar við fréttir af áformum flugfélaga.

Velsæld og Sjálfbærni leiðarljós

Sveinbjörn Indriðason, forstjóri Isavia, kynnti uppfærða stefnu Isavia um að Keflavíkurflugvöllur sé leiðandi alþjóðaflugvöllur sem vaxi á sjálfbæran hátt og styðji við velsæld þjóðarinnar. Hann sagði flugvöllinn gera það með því að styðja við vöxt og tækifæri ferðaþjónustunnar auk þess leggja ásamt íslensku flugfélögunum grunn að þeim fjölda flugtenginga sem íslenskt efnahagslíf reiðir sig á.

„Alþjóðasamtök flugvalla í Evrópu hafa gefið það út að 10% aukning í beinum flugtengingum skili um 0,5% hagvexti í viðkomandi landi og líklega eru áhrifin á Íslandi enn meiri þar sem við erum eyland,“ sagði Sveinbjörn. Hann sagði það jafnframt stefnu Isavia að hafa sjálfbærni að leiðarljósi í öllu. „Við viljum leggja okkar lóð á vogaskálarnar, annars vegar þar sem við finnum til ábyrgðar þegar kemur að þessum mikilvægu málum og hins vegar teljum við raunverulegt samkeppnisforskot og langtímavirðisauka felast í því að sinna sjálfbærni af alvöru,“ sagði Sveinbjörn.

Ábyrg uppbygging í takt við fjöldann

Guðmundur Daði Rúnarsson, framkvæmdastjóri viðskipta og þróunar hjá Isavia, sagði hraða endurheimt farþega á árinu og farþegaspána staðfesta að ferðaþjónustan hafi náð fyrri styrk og það hvetji Isavia til að halda áfram að þróa Keflavíkurflugvöll með ábyrgum hætti. „Við höfum þegar stigið mikilvægt skref með framkvæmdum við svokallaða Austurálmu sem mun opna í áföngum frá seinni hluta næsta árs og fram að lokum 2024. Með henni bætum við alla þjónustuupplifun á flugvellinum, fyrst í lok næsta árs með nýjum og miklu rúmbetri farangursmóttökusal,“ sagði Guðmundur Daði.

Til að veita innsýn í framtíð Keflavíkurflugvallar og hvernig unnið verður að þróun hans með sjálfbærni að leiðarljósi hefur Isavia opnað vefsvæðið kefplus.is. „Það eru spennandi hlutir að gerast á Keflavíkurflugvelli sem við viljum gefa öllum tækifæri til að fylgjast með, bæði á vefsvæðinu og með merkingum á flugvellinum. Til að ná utan um öll verkefni Isavia sem snúa að þessari þróun notum við samheitið KEF+, þar sem plúsinn táknar meira rými, aukna getu og þar með enn betri þjónustu,“ segir Guðmundur Daði.

Anna Björk Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri þjónustu og rekstrar hjá Isavia, var fundarstjóri á morgunfundinum.

Það var fjölmenni á morgunfundinum sem haldinn var í Norðurljósasal Hörpu.


Hér er hægt að horfa á fundinn í heild sinni.