Hoppa yfir valmynd
9.10.2019
Þróun innanlandsflugs og fjartengdir flugturnar til umræðu á Arctic Circle fundi á Akureyri

Þróun innanlandsflugs og fjartengdir flugturnar til umræðu á Arctic Circle fundi á Akureyri

Sigrún Jakobsdóttir, framkvæmdastjóri flugvallasviðs Isavia, var meðal fyrirlesara á fundi sem haldin var í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri miðvikudaginn 9. október. Fundurinn bar yfirskriftina From National Strategies to Shared Solutions – Best Practices for Sustainable Development in the Arctic. Hann var haldin í tengslum við Arctic Circle ráðstefnuna, sem verður í Hörpu í Reykjavík dagana 10. til 12. október.

Meðal fyrirlesara voru Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar, Ane Lone Bagger, ráðherra utanríkismála í grænlensku heimastjórninni, og fulltrúar sveitastjórna og þjónustufyrirtækja á Grænlandi.

Í erindi sínu fjallaði Sigrún m.a. um þróun innanlandsflugvallakerfisins á Íslandi frá 1986 til dagsins í dag, aðferðir til að opna fleiri gáttir til Íslands í gegnum fleiri flugvelli á Íslandi og tilraunir með fjartengda flugturna (Remote Tower) á Íslandi. Slík kerfi hafa verið í þróun víða um Evrópu og einnig í Bandaríkjunum og Kanada. Þá fór Sigrún einnig yfir samanburð á flugi og akstri milli staða á Íslandi með tilliti til útblásturs gróðurhúsalofttegunda og þróun rafmagnsflugvéla sem gagnast gætu í innanlandsflugi.

Isavia verður sem fyrr þátttakandi og stuðningaðili Arctic Circle ráðstefnunnar um næstu helgi sem haldin er hér á landi í sjöunda sinn.

Laugardaginn 12. október milli kl. 11:30 til 12:15 verður viðburður á vegum Isavia sem ber yfirskriftina „Aviation in the Arctic“. Þar mun Sigrún fara yfir atriðin í fyrra erindi sínu. Þá mun Ásgeir Pálsson, framkvæmdastjóri flugleiðsögusviðs Isavia, fjalla um aðferðafræðina sem notuð er í alþjóðasamstarfi á vegum NAT SPG, Cross Polar Working Group og Borealis Alliance – sem allt eru samstarfsvettvangar í flugleiðsögu og samvinnu milli flugstjórnarsvæða. Þá mun Þórdís Sigurðardóttir, yfirflugumferðastjóri hjá Isavia, fjalla nánar um Cross Polar Working Group samstarfið.

Þá mun Ásgeir einnig verða með kynningu á viðburði að kvöldi laugardagsins þar sem fjallað er um öryggi á sjó á Norðurslóðum. Ásgeir mun fjalla um samskipti og kögun á svæðinu.