Hoppa yfir valmynd
4.1.2019
TÍU TEYMI VALIN Í STARTUP TOURISM

TÍU TEYMI VALIN Í STARTUP TOURISM

Startup Tourism er tíu vikna viðskiptahraðall er sérsniðinn að þörfum nýrra fyrirtækja í ferðaþjónustu og hefur Isavia verið einn bakhjarla verkefnisins frá upphafi árið 2015. Verkefninu er ætlað að veita þátttakendum faglega undirstöðu og hraða ferlinu frá því að hugmynd fæðist þar til viðskipti taka að blómstra. Tíu teymi hafa verið valin til þátttöku í hraðalinn sem hefst 14. janúar.

Óskað var eftir eftir lausnum sem gætu fjölgað afþreyingarmöguleikum í ferðaþjónustu á Íslandi, styrkt innviði greinarinnar og stuðlað að dreifingu ferðamanna um allt land, allan ársins hring.

Alls bárust 128 umsóknir í Startup Tourism að þessu sinni sem er 13% aukning á milli ára, en umsóknarfrestur rann út þann 3. desember síðastliðinn. Af þeim hópi voru 29 umsækjendur teknir í viðtöl og hafa tíu nú verið valdir til þátttöku. Samkvæmt fulltrúa dómnefndar einkenndu umsóknirnar í ár skapandi afþreyingarlausnir og sterkar tæknilausnir og var valið því ekki auðvelt.

Í fyrsta sinn í sögu hraðalsins vinnur helmingur hópsins að tæknilausnum á sviði ferðaþjónustu á meðan hinn helmingurinn einbeitir sér að nýjum eða betri afþreyingarmöguleikum. Hópurinn á það sameiginlegt að þjónusta ferðamenn víðsvegar um landið og teygja sum fyrirtækjanna starfsemi sína út fyrir landsteinana. Í tíu vikur fá forsvarsmenn fyrirtækjanna tækifæri til að þróa áfram viðskiptahugmyndir sínar undir leiðsögn reyndra frumkvöðla, fjárfesta, lykilaðila innan ferðaþjónustunnar og annarra sérfræðinga þeim að kostnaðarlausu.

„Það er verulega ánægjulegt að sjá að umsóknarfjöldi í Startup Tourism heldur áfram að vaxa þó það hægist á fjölgun ferðamanna. Frumkvöðlar í ferðaþjónustu eru greinilega ekki af baki dottnir og halda áfram að fá góðar hugmyndir til að styrkja ferðaþjónustu í landinu,“ segir Svava Björk Ólafsdóttir, verkefnastjóri Startup Tourism. Hún segir verkefnið vera frábæran vettvang til að þróa áfram hugmyndir að nýjum lausnum. „Og sömuleiðis fyrir starfandi fyrirtæki sem vantar aðstoð við að taka næsta skref í rekstri. Hér vinnum við hratt og í krafti fjöldans en fyrirtækin munu vinna náið saman á jafningjagrundvelli og hitta fjöldann allan af sérfræðingum á sviði nýsköpunar og ferðaþjónustu.“

Auk Isavia eru bakhjarlar Startup Tourism Íslandsbanki, Bláa Lónið og Vodafone, en Icelandic Startups og Íslenski ferðaklasinn sjá um framkvæmd verkefnisins.

 

Eftirtaldin tíu fyrirtæki taka þátt í Startup Tourism árið 2018:

BusTravel IT

Hugbúnaðarlausn sem eykur ánægju viðskiptavina og skilvirkni í rekstri

Film Iceland

Stafrænn ferðavísir sem gægist bakvið tjöldin á kvikmyndatökustöðum landsins

GeoGardens

Samræktargróðurhús og veitingastaður á Hellisheiði

HandPicked Iceland

Leiðarvísir með ekta íslenskum upplifunum sem stuðla að grænni ferðamennsku

Iceland Bike Farm

Fjallahjólreiðar og einstök upplifun hjá hjólabændunum í Mörtungu

Iceland Outfitters

Faglegar og vinalegar veiðiferðir

Iceland Sports Travel

Sérhæfð íþróttaferðaskrifstofa með áherslu á ferðir íþróttahópa til Íslands

Selfie Station

Myndaupplifun við helstu kennileiti Íslands

Venture North

Ferðaþjónusta á Norðurlandi sem býður upp á ævintýraferðir á róðrabrettum

Wapp-Walking App

Leiðsagnarapp með fjölbreyttum leiðarlýsingum um allt land