Hoppa yfir valmynd
24.9.2022
Um 200 manns tóku þátt í flugslysaæfingu á Ísafjarðarflugvelli

Um 200 manns tóku þátt í flugslysaæfingu á Ísafjarðarflugvelli

Um 200 manns tóku þátt í flugslysaæfingu Almannavarna og Isavia á Ísafjarðarflugvelli laugardaginn 24. september. Þar voru æfð viðbrögð við flugslysi á eða við flugvöllinn.

Að þessu sinni byggði æfingin á því að flugvél með 29 farþega og áhöfn um borð hefði farist. Viðbragðsaðilar Ísafjarðarbæjar og nærliggjandi byggðarlögum tóku þátt í æfingunni. Aðgerðarstjórn var virkjuð á Ísafirði sem og Samhæfingarstöð almannavarna í Skógarhlíð í Reykjavík.

Elva Tryggvadóttir, verkefnastjóri neyðarviðbúnaðar hjá Isavia, segir að æfingin hafi gengið afar vel. „Almannavarnir og Isavia stóðu sem fyrr í sameiningu að æfingunni í samstarfi við viðbragðsaðila á svæðinu,“ segir Elva. „Æfing af þessu tagi er haldin til að þess að starfsfólk flugvalla sem og björgunarsveitir, heilbrigðisstarfsfólk, lögregla, slökkvilið, Landhelgisgæslan, Rauði krossinn og fleiri sem að þessum málum koma séu viðbúnir ef slys verður. Dagana fyrir æfingu var boðið upp á fræðslu í ýmsu sem tengist störfum viðbragðsaðila. Þeir viðburðir voru mjög vel sóttir. Liðsheildin í dag var afar skilvirk og samtaka. Allt eflir þetta samvinnuna í hvers konar hópslysum sem geta orðið á svæðinu.“

Páll Janus Hilmarsson er nýr umdæmisstjóri Isavia Innanlandsflugvalla á Vestfjörðum. Hann tók í dag þátt í sinni fyrstu flugslysaæfingu sem umdæmisstjóri á vellinum og segir að ánægjulegt hafi verið að fylgjast með og taka þátt í öflugu sameiginlegu átaki viðbragðsaðila og starfsfólks á flugvellinum. „Æfingar sem þessar skipta miklu máli fyrir Ísafjarðarflugvöll og samfélagið í kring.“

Næstu flugslysaæfingar Almannavarna og Isavia verða haldnar á Reykjavíkurflugvelli þann 1. október næstkomandi og síðan á Akureyrarflugvelli þann 15. október.