Hoppa yfir valmynd
4.10.2023
Um 90 þátttakendur í vel heppnaðri flugslysaæfingu á Húsavíkurflugvelli

Um 90 þátttakendur í vel heppnaðri flugslysaæfingu á Húsavíkurflugvelli

Flugslysaæfing var haldin á Húsavíkurflugvelli laugardaginn 30. september síðastliðinn. Markmiðið henni var að æfa samvinnu og samhæfingu viðbragðsaðila á svæðinu við hópslysi. Æfingin var samstarfsverkefni Isavia, Almannavarna, lögreglustjórans á Norðurlandi eystra og annarra viðbragðsaðila á svæðinu.

Æfingin var haldin í fallegu haustveðri. Þátttaka var góð en um 90 einstaklingar tóku þátt í æfingunni, allt frá viðbragðsaðilum yfir í ráðgjafa og leikara sem léku slasað fólk. Líkt var eftir flugslysi á flugvellinum, eldar voru kveiktir og björgunarstörfum sinnt við krefjandi aðstæður.

Æfingar af þessu tagi eru mikilvægur þáttur í hópslysaviðbúnaði um allt land auk þess sem að vera órjúfanlegur þáttur af öryggiskerfi flugvalla.

„Æfingin gekk afar vel en alltaf eru þættir sem hægt er að laga í stórri æfingu sem þessari,“ segir Friðfinnur Freyr Guðmundsson, verkefnastjóri neyðarviðbúnaðar hjá Isavia og æfingastjóri. „Við í æfingastjórn viljum þakka öllu því fólki sem tók þátt í æfingunni og gerði okkur mögulegt að stilla saman strengi í viðbúnaði við hópslysum hvers konar á þessu svæði. Næsta flugslysaæfing verður haldin á Egilsstaðaflugvelli laugardaginn 14. október næstkomandi.“