Hoppa yfir valmynd
29.9.2017
Umfangsmiklum malbiksframkvæmdum lokið

Umfangsmiklum malbiksframkvæmdum lokið

Malbikun flugbrautanna á Keflavíkurflugvelli er nú lokið og klippt var á borða við opnun austur-vestur brautarinnar á dögunum. Framkvæmdir hófust sumarið 2016 og en heildarverkið er að malbika báðar flugbrautirnar, skipta út öllum raflögnum og flugbrautarljósum út fyrir orkusparandi díóðuljós.

Jafnast á við allar malbikunarframkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu

Mikið er vandað til verka við malbikunarframkvæmdir á flugvöllum til þess að yfirborðið endist sem best, en ráðast þarf í svona framkvæmd á um 15-20 ára fresti. Kostnaður við framkvæmdina er um sjö milljarðar króna en malbikunarhluti verkefnisins jafnast á við allar malbikunarframkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu á einu ári. Malbikunarstöð var reist innan flugvallarsvæðisins og til framkvæmdarinnar þurfti um 100.000 rúmmetra af efni. Hvor flugbraut um sig er um 60 metra breið og 3.000 metra löng. Malbikið sem notað var í framkvæmdina dygði til þess að leggja um 90 km langan tveggja akreina þjóðveg. Nú er unnið að því að klára rafmagnshluta framkvæmdarinnar en í heild hafa verið lögð um 3.700 ljós og 150 kílómetrar af rafmagnsköplum.

100 starfsmenn unnið við verkið

Verkið var boðið út og varð ÍAV fyrir valinu sem aðalverktaki. Fjöldi annarra fyrirtækja hafa tekið þátt sem undirverktakar; Hlaðbær Colas sá um malbiksvinnuna en einnig komu að verkinu breskir og norskir verktakar. Verkfræðistofan Efla sér um eftirlit með framkvæmdinni. Um 100 starfsmenn frá 12-15 fyrirtækjum hafa unnið beint að verkefninu.

Framkvæmd sem þessi á flugvelli í fullum rekstri, á metári, er áskorun. Verkið hefur verið í undirbúningi um nokkurra ára skeið og mikið samráð haft við flugrekendur um áfangaskiptingu og framgang þess. Sérstakt mat var gert á nýtingu vallarins og hvort minnkuð þjónusta á framkvæmdatíma hefði áhrif á flugstarfsemina. Matið sýndi að nokkra daga á hvoru ári framkvæmdanna yrði ekki hægt að lenda á Keflavíkurflugvelli um nokkurra klukkustunda skeið. Raunin hefur verið sú hingað til að þessi skipti hafa verið færri en matið leiddi í ljós og einungis örfáar vélar hafa þurft frá að hverfa vegna framkvæmdanna og hafa þær þá yfirleitt lent á Akureyrarflugvelli eða Egilsstaðaflugvelli.

Isavia vill þakka þeim fjölmörgu sem tóku þátt í verkefninu fyrir frábært samstarf.