Hoppa yfir valmynd
19.4.2021
United Airlines flýgur aftur til Íslands í sumar bæði frá New York og Chicago

United Airlines flýgur aftur til Íslands í sumar bæði frá New York og Chicago

Bandaríska flugfélagið United Airlines tilkynnti í dag að það ætlaði að hefja flug til Íslands að nýju nú í sumar um leið og lönd fara að opna fyrir ferðalögum bólusetts fólks. Áætlanir United Airlines gera ráð fyrir að flogið verði áfram milli New York/Newark og Keflavíkurflugvallar eins og áður en til viðbótar verður flogið til og frá Chicago-borg í miðvesturríkjum Bandaríkjanna, en þetta verður í fysta sinn sem félagið býður upp á flug milli Chicago og Íslands.

Chicago flugið hefst 1. júlí næstkomandi og stendur til 4. október. Flug til og frá New York/Newark hefst 3. júní og stendur til 30. október. Flogið verður daglega til beggja áfangastaða. Áætlunin gerir ráð fyrir að farþegar geti nýtt þær tengingar sem eru á O´Hare-flugvelli í Chicago til yfir hundrað borga í Norður-Ameríku.

Frá fyrsta flugi United milli New York/Newark og Keflavíkur 25. maí 2018. Mynd: Isavia.

Í tilkynningu United Airlines kemur fram að ákvörðunin um flug til Íslands og annarra áfangastaða endurspegli áhuga farþega félagsins. Á síðastliðnum mánuðum hafi komið fram við athugun á því að hverju farþegar leituðu helst á vef félagsins að áhugi á Íslandi hefði aukist um 61% og þegar sé hægt að byrja að bóka flug.

Patrick Quayle, aðstoðarframkvæmdastjóri alþjóðasviðs United, segir að vel sé fylgst með því hvernig þjóðir heims opni á ný eftir heimsfaraldurinn. „Ferðalangar eru áfjáðir í að komast í langþráða ferð til nýrra áfangastaða.“ Ísland sé meðal þeirra áfangastaða sem bjóði fólki upp á nátturufegurð og víðáttu.

Guðmundur Daði Rúnarsson, framkvæmdastjóri viðskipta og þróunar hjá Isavia, segir Keflavíkurflugvöll bjóða United Airlines velkomið aftur til Íslands. „Við höfum átt í afar góðu samstarfi við United á síðustu árum og við hlökkum til að halda því áfram. Sú ákvörðun félagsins að fjölga áfangstöðum er sterk vísbending um það að Ísland verði vinsæll áfangastaður eftir heimsfaraldurinn. Þá er ljóst að eftirspurn eftir ferðum frá Bandaríkjunum til Íslands er umtalsverð, en Bandaríkjamarkaður var mikilvægur fyrir faraldurinn og verður það áfram að honum loknum.“

Mynd: United Airlines.