Hoppa yfir valmynd
26.10.2023
United Airlines hefur á ný flug milli Keflavíkur og New York

United Airlines hefur á ný flug milli Keflavíkur og New York

Bandaríska flugfélagið United Airlines tilkynnti í dag að það myndi hefja á ný flug milli Keflavíkurflugvallar og New York næsta sumar. Fyrsta ferð verður farin 23. maí 2024 og verður flogið daglega til og með 25. september 2024. United hóf flug til Íslands fyrir fimm árum og flaug milli Keflavíkur og New York á árunum 2018 til 2022.

Samkvæmt sumaráætlun United fyrir árið 2024, sem var kynnt í dag, verður einnig flogið milli Keflavíkur og Chicago frá 10. maí til 25. september. United Airlines hefur flogið þar á milli síðan sumarið 2021. Chicago - Keflavík þá var það fyrsta nýja flugleiðin sem félagið bætti við eftir Covid-19 heimsfaraldurinn.

„Það er okkur mikið ánægjuefni að United Airlines hafi tekið þá ákvörðun að hefja aftur flug milli Keflavíkurflugvallar og New York,“ segir Grétar Már Garðarsson, forstöðumaður flugfélaga og leiðaþróunar hjá Isavia. „Bandaríkin eru stór markaður fyrir okkur og við metum mikils það góða samstarf sem við höfum átt við United Airlines á síðustu árum. Félagið er mikilvægur samstarfsaðili okkar. Þessi ákvörðun að bæta New York aftur við áætlun United sýnir að það er eftirspurn eftir ferðalögum milli Bandaríkjanna og Íslands og við munum taka fagnandi á móti ferðalögum félagsins sem koma hingað næsta sumar.“

„Við erum spennt að tilkynna að við höfum bætt við þjónustu okkar milli Íslands og Bandaríkjanna fyrir sumarið 2024,“ segir Marcel Fuchs, framkvæmdastjóri alþjóðlegrar sölu hjá United Airlines. „Næsta sumar verður félagið með stærstu sumaráætlun þegar kemur að flugi yfir Atlantshafið. Viðskiptavinir félagsins hafa fleiri valkosti til ferðalaga og geta tengt í gegnum bandarískar tengistöðvar til annarra áfangastaða þvert yfir Bandaríkin.“