Hoppa yfir valmynd
1.2.2019
UPPLÝSINGAÞJÓNUSTA FLUGMÁLA SEMUR VIÐ LUFTFARSVERKET

UPPLÝSINGAÞJÓNUSTA FLUGMÁLA SEMUR VIÐ LUFTFARSVERKET

Isavia undirritaði í lok árs 2018 þjónustusamning við LFV (Luftfarsverket) í Svíþjóð um aðgang að nýjum hugbúnaði fyrir upplýsingaþjónustu flugmála (AIS).

Hjá Isavia hefur undanfarin ár verið unnið að því að mæta nýjum kröfum um bætt gæði flugmálagagna og flugmálaupplýsinga. Samningurinn felur í sér samstarf á milli þjónustuveitenda á Íslandi, í Svíþjóð og Danmörku um sameiginlega lausn sem mun auka hagkvæmni og skilvirkni. Byggt er á útboði LFV sem fór fram á evrópska efnahagssvæðinu og er IDS (Ingegneria Dei Sistemi) framleiðandi hugbúnaðarins.

Með samningnum verður öllum kerfum upplýsingaþjónustu flugmála skipt út, þar á meðal:

  • Flugferlahönnun
  • Kortagerð
  • NOTAM (Notice to Airmen – skilaboð til flugmanna)
  • Gagnagrunni
  • Flugmálahandbók (AIP)

„Samningurinn felur einnig í sér þjálfun starfsmanna. Með lausninni er gert ráð fyrir að ná fram hagkvæmum rekstri, auka framleiðslugetu og gera Isavia kleift að uppfylla nýjar kröfur.“ segir Haraldur Ólafsson deildarstjóri ATS, AIS, MET.

„Ávinningurinn af samstarfi þjónustuveitanda (ANSP) er skilvirkari þróunarferli sem draga úr kostnaði og spara tíma. Einnig eykur þetta skilvirkni í stjórnun, skipulagningu vegna ófyrirsjáanlegra atburða sem og vegna öryggisráðstafana,“ segir Anna Helena Wåhlin, framkvæmdastjóri hjá LFV.

Vinnan er þegar hafin og voru starfsmenn frá LFV og IDS voru í heimsókn hjá Isavia í janúar til að kynnast aðstæðum, ræða við starfsmenn Isavia og greina þarfir fyrirtækisins.