Hoppa yfir valmynd
10.8.2016
Úrskurðarnefnd upplýsingamála vísar frá kæru

Úrskurðarnefnd upplýsingamála vísar frá kæru

Vegna frétta um frávísun úrskurðarnefndar upplýsingamála á kæru sem henni barst vill Isavia taka eftirfarandi fram. Lög um upplýsingarétt almennings eru hugsuð til þess að veita almenningi aðgang að gögnum sem verða til hjá fyrirtækjum og stofnunum sem heyra undir lögin. Þau eru ekki hugsuð þannig að hægt sé að óska eftir að ákveðin gögn séu tekin saman. Af þessum sökum var kæru um meinta synjun Isavia á afhendingu gagna vísað frá, einfaldlega vegna þess að gögnin sem beðið var um voru ekki til staðar.

Upplýsingarnar varða meðal annars ferðir stjórnenda til útlanda. Upplýsingar um ferðir starfsmanna Isavia eru að sjálfsögðu til í bókhaldi Isavia en ekki hafa verið tekin saman sérstaklega þau gögn sem óskað var eftir um ferðir stjórnenda og stjórnar. Að sjálfsögðu er staðið skil á upplýsingum úr bókhaldi Isavia til skattayfirvalda vegna dagpeningagreiðslna og auk þess gæta endurskoðendur fyrirtækisins gæta þess að rétt og löglega sé staðið að þessum málum. Upplýsingabeiðnin sem kæran laut að barst í kjölfar frétta frá árinu 2014 um utanlandsferð forstjóra Isavia. Isavia hefur svarað ítarlega fyrir málið í fjölmiðlum.

Starfsfólk Isavia sækir sér meðal annars þekkingu með því að fara á ráðstefnur erlendis, að auki hefur starfsfólk farið utan til þess að halda fyrirlestra á slíkum ráðstefnum og taka við verðlaunum sem félagið hefur hlotið fyrir góðan árangur, svo nokkuð sé nefnt. Stjórnarmenn Isavia ferðast almennt ekki á vegum fyrirtækisins. Makar starfsmanna hafa farið með starfsmönnum í vinnuferðir, þó það sé ekki algengt, og almennt þegar makar ferðast með starfsmönnum er reynt að haga málum þannig að maki er bókaður með starfsmanni í gegnum Isavia en greiðsla fyrir flugmiða maka er greiddur beint með kreditkorti viðkomandi starfsmanns eða maka. Þá kemur fyrir að starfsmenn nýti tækifærið þegar þeir ferðast erlendis á vegum Isavia að þeir taki sér samhliða því frí erlendis. Það er þó alveg ljóst að Isavia ber engan kostnað af slíkum fríum, hvorki vegna starfsmanns eða maka.

Mistök áttu sér stað og forstjóri Isavia hefur farið vel yfir þau, meðal annars í ítarlegu viðtali í Kastljósi fyrir tæpu einu og hálfu ári síðan. Þá hefur Ríkisendurskoðun gert úttekt á þeim vinnureglum sem gilda innan Isavia um reglur varðandi ferðir erlendis og ekki gert athugasemdir við þær. Þegar Kastljós fjallaði um málið var sérstaklega farið yfir ferðir starfsmanna hjá Isavia og í ljós kom að þetta voru örfá tilvik þar sem Isavia hafði lagt út fyrir ferð maka en ferðirnar höfðu í öllum tilvikum verið greiddar til baka af maka eða starfsmanni. Að sjálfsögðu fór Isavia yfir allt verklag og lögð áhersla á þær reglur fyrirtækisins að fyrirtækið ætti ekki að leggja út fyrir ferðum maka, jafnvel þótt greiðsla fyrir ferðina kæmi til Isavia áður en ferðin yrði gjaldfærð á kreditkort Isavia. Því hefur verið fylgt að öllu leyti síðan.