Hoppa yfir valmynd
21.7.2015

Úthlutun afgreiðslutíma á Vestmannaeyjaflugvelli

Afgreiðslutíma á Vestmannaeyjaflugvelli um verslunarmannahelgi verður úthlutað í ár. Þetta er gert í kjölfar áhættumats sem unnið var í fyrra og það hefði verið óábyrgt af Isavia að bregðast ekki við niðurstöðum þess. Úthlutunin er gerð til þess að koma í veg fyrir að hættuástand skapist vegna of mikils álags.

Umferð um flugvöllinn er mjög mikil um verslunarmannahelgi og því verður afgreiðslutímum úthlutað með hliðsjón af áætluðu umferðarmagni og miðað er við að flugtök og lendingar verði ekki fleiri en átta á hverjum hálftíma. Bæði er það til þess að tryggja að ekki séu of margar flugvélar í einu í loftrýminu og vegna þess að stæði á flugvellinum eru takmörkuð. Umferðin undanfarin ár hefur verið rýnd og samkvæmt þeirri rýni ættu allir að komast leiðar sinnar, en mögulega gætu þeir þurft að hliðra tímum til þess að dreifa álaginu á flugvöllinn betur. Þess má geta að algengt er á flugvöllum að afgreiðslutímum sé úthlutað á álagstímum. Þetta á til dæmis við um Keflavíkurflugvöll en þar er afgreiðslutímum úthlutað á helstu álagstímum sólarhringsins.

Um verslunarmannahelgina árið 2014 voru flughreyfingar 566 talsins og fjöldi afgreiðslutíma í ár er 896.