Hoppa yfir valmynd
22.8.2014

Val á rekstraraðilum í Flugstöð Leifs Eiríkssonar gengur eftir áætlun: Samningaviðræður framundan

Isavia kynnti forval vegna aðstöðu til verslunar- og veitingareksturs í Flugstöð Leifs Eiríkssonar 19. mars síðastliðinn sem vakti mikla athygli innanlands og erlendis. Samningstími núverandi rekstraraðila rennur út í árslok og gert er ráð fyrir að endurnýjað verslunarsvæði verði tekið í notkun vorið 2015.

Fjöldi umsókna barst og undanfarna mánuði hefur verið unnið að mati þeirra eftir ítarlegu og fastmótuðu ferli. Öllum umsóknum hefur verið svarað og framundan eru samningaviðræður við þá rekstraraðila sem báru af í mati umsókna.

Áhersla á þjónustu og upplifun farþega

Samhliða vali á rekstraraðilum verður ráðist í breytingar á brottfararsal flugstöðvarinnar og endurskipulagningu þjónustunnar. Vegna breyttrar farþegaskiptingar og mikillar aukningar erlendra ferðamanna verður íslensk náttúra og menning höfð að leiðarljósi við endurskipulagningu og hönnun. Rannsóknir sýna að hönnun verslunarsvæðis, framboð verslana og veitingastaða hefur mikil áhrif á ánægju og heildarupplifun farþega af flugvellinum. Mikil áhersla hefur því verið lögð á það í mati umsókna hvernig umsækjendur hyggjast uppfylla kröfur um þjónustu og hvernig þeir sjái fyrir sér að falla að því þema sem lagt verður upp með við endurskipan svæðisins.

Valferli að alþjóðlegri fyrirmynd

Val á rekstraraðilum fer fram í samvinnu við breska ráðgjafarfyrirtækið Concession Planning International, sem er eitt virtasta fyrirtækið á sviði reksturs og skipulagningar smásölu á flugvöllum, og er unnið eftir alþjóðlegri fyrirmynd.

Næstu skref eru sem fyrr segir samningaviðræður við þá rekstraraðila sem komu best út úr mati umsókna í hverjum vöruflokki. Gert er ráð fyrir að  viðræður hefjist við einstaka aðila í lok ágúst og að þeim ljúki í byrjun nóvember. Isavia gætir trúnaðar um alla umsækjendur en að loknu samningaferlinu verða gefin upp nöfn þeirra aðila sem samið verður við.  

Isavia leggur áherslu á að flugfarþegar njóti afbragðsþjónustu og geti gert góð kaup í verslunum og á veitingastöðum flugstöðvarinnar.