Hoppa yfir valmynd
2.2.2014

Vegna fjölmiðlaumfjöllunar um úthlutun flugafgreiðslutíma á Keflavíkurflugvelli

Vegna fjölmiðlaumfjöllunar um úrskurð Samkeppniseftirlitsins vegna úthlutunar flugafgreiðslutíma á Keflavíkurflugvelli vill Isavia ítreka eftirfarandi:

Úthlutun afgreiðslutíma á flugvöllum fer eftir samræmdum evrópskum reglum sem lögfestar eru hérlendis. Samkvæmt þeim annast óháður aðili úthlutun og samræmi afgreiðslutíma á upphafs- og endastöð hvers flugs. Isavia kemur því ekki að úthlutun afgreiðslutíma og getur ekki haft afskipti af störfum samræmingarstjóra, enda skortir til þess lagaheimild. Áfrýjun Isavia vegna ákvörðunar Samkeppniseftirlits byggist á ofangreindu en úrskurðurinn er að mati Isavia óeðlilegt inngrip í samræmdar EES-reglur.

Öflugt markaðsstarf eykur samkeppni

Isavia annast meðal annars rekstur og uppbyggingu allra flugvalla á Íslandi. Eitt af helstu markmiðum í starfi félagsins er að auka tíðni, og þar með samkeppni, í áætlunarflugi til og frá landinu. Til þess að ýta undir fjölgun flugfélaga býður Isavia nýjum flugfélögum tímabundinn afslátt af lendingargjöldum samkvæmt sérstöku hvatakerfi. Starfsmenn félagsins hafa undanfarin ár fundað með fjölmörgum  flugfélögum til að kynna þjónustu flugvallarins og Ísland sem áfangastað.  Markaðsstarfs félagsins hefur m.a. skilað sér með þeim hætti að nú halda 17 flugfélög uppi áætlunarflugi til Íslands yfir sumarmánuðina og fimm til sex flugfélög allt árið. Til samanburðar voru fyrir 10 árum einungis sjö flugfélög með tímabundna áætlun og aðeins tvö með áætlun allt árið. Engar fullyrðingar um að Isavia stuðli ekki að samkeppni í áætlunarflugi eiga því við rök að styðjast.

Stækkun kostnaðarsöm

Nægir afgreiðslutímar eru í boði á Keflavíkurflugvelli utan einnar og hálfrar klukkustundar að morgni og síðdegis. Fjöldi flugfélaga sem geta fengið úthlutað afgreiðslutíma á þessum tveimur háannatímum takmarkast af stærð flugstöðvarinnar og fjölda flugvélastæða við hana. Frekari stækkun til aukinnar afkastagetu er mjög kostnaðarsöm. Markmið Isavia er að auka nýtingu flugstöðvarinnar sem mest með dreifðari notkun áður en ráðist verði í kostnaðarsama stækkun og hefur það starf gengið nokkuð vel.