Hoppa yfir valmynd
4.6.2015

Vegna greinar Aðalheiðar Héðinsdóttur um forval í Flugstöð Leifs Eiríkssonar

Aðalheiður Héðinsdóttir forstjóri Kaffitárs skrifar grein í Fréttablaðið 4. júní um forval vegna útleigu á verslunar- og veitingarými í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Efni greinar Aðalheiðar gefur tilefni til leiðréttinga á helstu rangfærslum um framkvæmd forvalsins.   

Röng túlkun á niðurstöðu úrskurðarnefndar upplýsingamála

Í greininni vísar Aðalheiður til þess að úrskurðarnefnd um upplýsingamál hafi komist að þeirri niðurstöðu að forvalið hafi verið ógagnsætt, þetta er rangt. Úrskurðarnefndin fjallar einungis um hvort fyrir hendi séu gögn sem beri að veita aðgang að. Nefndin lagði ekki mat á forvalsferlið sjálft enda er það ekki hlutverk hennar að meta ferlið eða forsendur valsins.  

Viðkvæm viðskiptagögn

Úrskurðarnefnd upplýsingamála komst að því í úrskurðum sínum að Isavia bæri að afhenda ákveðin gögn sem félagið hafði hafnað að afhenda enda féllu þær undir undanþáguheimildir upplýsingalaga auk þess sem félagið taldi að 10. gr. samkeppnislaga beinlínis bannaði afhendingu þeirra.  Félagið taldi að um mjög viðkvæm gögn væri að ræða sem vörðuðu viðskiptahagsmuni þeirra lögaðila sem gögnin stöfuðu frá og gæta bæri trúnaðar um. Á meðal gagna eru ítarlegar upplýsingar  þeirra sem tóku þátt m.a. viðskiptaáætlanir,  markaðsáætlanir, skulda- og eignastaða, álagningarstefna, samningar við birgja o.fl. sem lögð voru til grundvallar við mat valnefndarinnar á þátttakendum sem mega ekki komast til samkeppnisaðila.  Þá gerir Isavia verulegar athugasemdir við stjórnsýslumeðferð málsins hjá úrskurðarnefnd upplýsingamála og telur að nefndin hafi brotið veigamikil ákvæði stjórnsýslulögum við meðferð málsins.  Auk þess er verulegt ósamræmi milli ákvörðunar nefndarinnar um gögn sem beri að afhenda og önnur sem leynt skuli fara. Þannig séu dæmi um að gögn sem séu með sambærilegar upplýsingar skuli afhent og ekki afhent.  Í ljósi þessa óskaði Isavia eftir að nefndin endurskoðaði ákvörðun sína eða féllist á frestun réttaráhrifa svo bera mætti úrskurðinn undir dómstóla.

Tilboðsgögnum ekki eytt

Eins og fram hefur komið var forvalið í tveimur stigum. Samkvæmt skilmálum forvalsins voru fjárhagsleg gögn þeirra sem náðu ekki tilskilinni einkunn í tæknilegum hluta síðari stigsins ekki opnuð og þau sem og önnur gögn þessara aðila endursend. Þessi gögn eru því ekki lengur í vörslu félagsins.  Þá voru dæmi um að umsækjendur óskuðu eftir að gögn væru endursend. Isavia eyddi því ekki gögnum sem við komu tilboðum þátttakenda.

Úrskurðarnefnd upplýsingamála fékk öll forvalsgögn í hendur sem til voru í fórum Isavia þ.m.t. þær umsóknir sem komust jafn langt og Kaffitár og voru að keppa við það fyrirtæki í sama flokki. Að öðru leyti snerust samskiptin við nefndina um á hvaða formi og með hvaða hætti gögnin bæri að afhenda  enda lá fyrir að nefndin ætlaði að senda þau úr landi.

Fundargerðir hafa verið afhentar

Greinarhöfundur heldur því fram að fundargerðir hafi ekki verið til. Það er rangt, fundargerðir eru til og voru afhentar fulltrúum Kaffitárs þegar þess var óskað. Þrátt fyrir að vinnuskjöl séu almennt undanþegin upplýsingarétti voru matsblöð valnefndarmanna einnig afhent.  Frekari gögn sem varða mat valnefndamanna sjálfra sem lagt var til grundvallar við einkunnagjöf fyrirtækja liggja ekki fyrir hjá Isavia en um forsendur matsins voru þeir bundnir af fyrirmælum í forvalsgögnunum.  

Valferli að erlendri fyrirmynd

Forval vegna leigu á húsnæði fyrir verslunar- og veitingarekstur í Flugstöð Leifs Eiríkssonar á Keflavíkurflugvelli fór fram samkvæmt aðferðafræði sem útlistuð var í forvalsskilmálum og þátttakendur samþykktu þegar þeir skiluðu inn tilboði. Skilað var inn tveimur tilboðum, tæknilegu og fjárhagslegu. Ferlið er að erlendri fyrirmynd og fékk Isavia í lið með sér erlenda ráðgjafa sem hafa sérhæft sig í valferli fyrir verslunar- og veitingarekstur í flugstöðvum.

Í forvali því sem hér um ræðir sendu fyrirtæki inn ýmiskonar gögn, eins og nánar var kveðið á um í forvalsgögnum. Annars vegar var um að ræða upplýsingar um fyrirtækin sjálf, starfsemi þeirra og fjárhagslega hagsmuni, hins vegar var um að ræða tilboð fyrirtækjanna sem fólu í sér ýmsar upplýsingar, s.s. viðskiptaáætlun og fjárhagslegt tilboð, sem verða að teljast til viðkvæmra fjárhagslegra hagsmuna.  Um er að ræða mun víðtækari gögn en þeirra sem t.d. er krafist í venjulegum útboðsmálum.

Skilaði fyrir lokafrest

Lokafrestur til að skila inn tilboðum var 25. júní 2014 klukkan 16:00 og var ekki tekið við tilboðum eftir þann tíma.  Þar sem greinarhöfundur tekur sérstaklega fram nafn eins tilboðsgefanda og gerir meðhöndlun tilboðs viðkomandi tortryggilegt er rétt að geta þess að viðkomandi aðili skilaði sínu tilboði inn fyrst allra fyrirtækja og viku fyrir lokafrest.  Viðkomandi bjóðandi setti fram tölur fyrir boð í verslanir- og veitingar saman í eitt boð. Isavia bað fyrirtækið um að skilja þarna á milli og senda tilboðið aftur sundurliðað. Af þeirri ástæðu er til skjal dagsett 11. júlí frá þeim.

Besta boðið valið

Markmið forvalsins á verslunum og veitingastöðum var að hámarka tekjur af verslunarsvæðinu. Tekjur þessar eru mjög mikilvægar svo hægt sé að halda áfram áformum um uppbyggingu Keflavíkurflugvallar. Uppbyggingu sem er nauðsynleg svo hægt sé að taka við þeirri aukningu ferðamanna sem fyrirséð er næstu árin. Við val á rekstraraðilum var horft til þess að hámarka tekjurnar um leið og valdir væru aðilar sem veita sem besta þjónustu. Að mati valnefndar sem starfaði í samræmi við skilmála forvalsins voru önnur tilboð sem bárust mun betri en tilboð Kaffitárs og því var það ekki valið í samræmi við ákvæði skilmála forvalsins.