Hoppa yfir valmynd
2.4.2014

Vegna kjaraviðræðna Isavia við FFR, SFR og LSS

Eins og fram hefur komið hafa Félag flugmálastarfsmanna ríkisins (FFR), Stéttarfélag í almannaþjónustu (SFR) og Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna (LSS) lokið kosningu um tímabundnar vinnustöðvanir félagsmanna sinna í störfum hjá Isavia frá kl 4 til kl 9 að morgni dagana 8., 23. og 25. apríl næstkomandi náist ekki að semja fyrir þann tíma. Starfsmenn sem um ræðir eru m.a. flugvallarstarfsmenn á öllum flugvöllum landsins og flugöryggisverðir á Keflavíkurflugvelli, alls um 400 manns.

Isavia leitast við að nálgast kjarasamninga af ábyrgð og í samræmi við markmið um að kaupmáttur geti aukist umfram verðlag. Samningar hafa þegar verið gerðir við aðildarfélög ASÍ sem ná til fjölda starfsmanna félagsins.

Kröfur viðkomandi stéttarfélaga eru talsvert hærri en samið hefur verið um á almennum vinnumarkaði og jafnframt vilja félögin gera samninga til skamms tíma. Þá hefur hugmyndum samninganefndar til að koma til móts við kröfur félaganna verið hafnað. Isavia og Samtök atvinnulífsins vilja koma með raunhæfar tillögur að borðinu og eru nú af fremsta megni að reyna að leysa deiluna.

Ljóst er að komi til vinnustöðvunar mun það hafa í för með sér röskun á innanlandsflugi og millilandaflugi á umræddu tímabili. Isavia vinnur að viðbragðsáætlun ásamt flugrekstraraðilum sem miðar að því að takmarka sem mest röskun á flugi og óþægindi sem af þeim kunna að hljótast.

Næsti fundur samningsaðila verður á föstudag og vonast Isavia til þess að samningar takist og komist verði hjá vinnustöðvun.