Hoppa yfir valmynd
22.12.2010

Vegna umfjöllunar um flug Flugfélags Íslands til Noregs

Vegna umfjöllunar um flug Flugfélags Íslands til Noregs vill Isavia koma eftirfarandi á framfæri:

Öryggisreglur til verndar flugfarþegum hafa verið hertar gífurlega á undanförnum árum eins og farþegar og aðrir notendur flugvalla hafa orðið varir við. Isavia ber ábyrgð á því að farið sé eftir þessum öryggisreglum sem eru í samræmi við kröfur Evrópusambandsins og Alþjóðaflugmálastofnunarinnar sem innleiddar hafa verið hér á landi.  Eftirlit með framkvæmdinni er hjá Flugmálastjórn Íslands.

Þær þjóðir er fylgja þessum reglum eru auk Evrópusambandsins: Ísland, Noregur og Sviss. Sömu reglur gilda því í öllum þessum löndum.

Reykjavíkurflugvöllur uppfyllir ekki kröfur Evrópusambandsins. Til þess að svo mætti verða þarf að ráðast í miklar og kostnaðarsamar breytingar á flugvellinum. Grænland og Færeyjar eru ekki í Evrópusambandinu og því hefur tekist að fá undanþágu til flugs milli Reykjavíkur og flugvalla í þeim löndum.  

Undanþágur innanlands
Einnig hefur tekist að fá undanþágu frá umræddum öryggisreglum á flugvöllum í innanlandsflugi sem byggist m.a. á fjarlægð Íslands frá meginlandi Evrópu. Slíkar undanþágur eru ekki í gildi í öðrum löndum. Farþegar sem fljúga innanlands hafa hingað til ekki þurft að fara í gegnum öryggisleit en ávallt er mögulegt að það geti breyst.

Farþegaflug til Noregs frá Reykjavíkurflugvelli stenst ekki gildandi kröfur
Farþegaflug frá Reykjavíkurflugvelli til Noregs getur ekki staðist gildandi kröfur. Flugfélag Íslands hóf sölu farmiða í beinu flugi milli Reykjavíkurflugvallar og flugvalla í Noregi án þess að heimild fyrir slíku flugi lægi fyrir. Isavia benti Flugfélagi Íslands ítrekað á að ekki væri hægt að veita leyfi fyrir umræddu flugi af ofangreindum ástæðum og benti á þá möguleika að færa flugið til Keflavíkurflugvallar eða að millilenda á Egilsstöðum en báðir flugvellirnir uppfylla öryggiskröfur fyrir umrætt flug.

Isavia telur yfirlýsingar Flugfélags Íslands á opinberum vettvangi um „óþarfa millilendingar“ og „ósveigjanleika“ekki á rökum reistar. Flugfélagi Íslands var fullkunnugt um að mjög ólíklegt væri að leyfi fengist til þess að hafa beint farþegaflug frá Reykjavíkurflugvelli til Noregs er það hóf farmiðasölu til viðskiptavina sinna.