Hoppa yfir valmynd
7.5.2015

Vegna umfjöllunar um ræðu á Alþingi

Vegna umfjöllunar á Ruv.is og Bylgjunni um ræðu Þorsteins Sæmundssonar undir liðnum um störf þingsins á Alþingi sem flutt var 5. maí síðastliðinn þykir okkur rétt að koma eftirfarandi á framfæri.

Þorsteinn segir árshátíð Isavia greidda af skattfé. Það er ekki rétt, Isavia er félag í opinberri eigu og skilar hagnaði. Félagið rekur innanlandsflugvallakerfi Íslands í samræmi við þjónustusamning við innanríkisráðuneyti og það fé er aðeins notað til rekstrar kerfisins. Önnur starfsemi Isavia er rekstur sem ber sig vel og þar kemur ekki inn fé frá ríkinu. Isavia heldur árshátíð einu sinni á ári, eins og önnur fyrirtæki, og sóttu um 800 manns síðustu árshátíð, en um 1.000 manns vinna hjá félaginu. Það er kostnaðarsamt að halda árshátíð, sérstaklega hjá fyrirtæki með starfsemi um allt land. Við lítum á árshátíðina sem mikilvægan viðburð þar sem starfsfólk getur komið saman og fagnað árinu, enda hefur það staðið sig mjög vel og hlotið alþjóðleg verðlaun fyrir. Þess má geta að starfsmenn og makar þeirra greiddu 3.000 krónur fyrir miðann á árshátíðina.

Gjaldið vegna leigubílaaksturs á Keflavíkurflugvelli er tekið upp til þess að tryggja að aðeins þeir sem hafi þar til bær réttindi geti stundað leigubílaakstur frá flugstöðinni. Gjaldið er hóflegt að okkar mati, eða um 100-150 krónur á ferð miðað við árgjald. Isavia tekur gjald af hópferðabifreiðum, bílaleigubílum og einkabílum með sama hætti. Við höfum lagt í fjárfestingu við aðgangsstýringu og uppsetningu girðingar auk þess sem sett hefur verið upp afdrep fyrir leigubílstjóra þar sem þeir geta fengið sér kaffi og fylgst með leigubílaröðinni um myndavélakerfi. Þetta er þjónustan sem þeir greiða fyrir með gjaldinu. Fyrirkomulagið er þekkt á flugvöllum erlendis. Nánari upplýsingar um málið er að finna hér.

Frétt Stundarinnar sem RÚV vísar í um óánægju starfsfólks byggir ekki á réttum tölum. Isavia lét gera könnun á starfsánægju og sýndi hún að rúm 72% starfsfólks voru ánægð, 17,5 hvorki né, 10,02% óánægð. Við vitum að við getum alltaf bætt okkur og við gerum það með því að komast að því hver ástæðan er fyrir óánægju og hvað við getum gert til að laga stöðuna. Svo mælum við aftur og sjáum hvort aðgerðirnar hafi skilað árangri.