Hoppa yfir valmynd
27.4.2016
Vegna umræðu síðustu daga vill Isavia koma eftirfarandi á framfæri:

Vegna umræðu síðustu daga vill Isavia koma eftirfarandi á framfæri:

Fríhöfnin ehf., dótturfélag Isavia, er í samkeppni við verslanir á öðrum flugvöllum og með því að reka góðar verslanir á Keflavíkurflugvelli er unnt að halda versluninni inni í landinu, frekar en að hún færist til annarra landa. Þetta hafa fjölmörg ríki og flugvellir borið kennsl á og því boðið upp á möguleika fyrir komufarþega á að versla í tollfrjálsri komuverslun á heimaflugvellinum frekar en á þeim flugvelli sem flogið er frá. Þetta var t.d. gert í Noregi og náðist þannig verslun inn í landið í sem annars fór fram á þeim flugvöllum sem farþegar flugu frá. Við opnun komuverslunar í Noregi minnkuðu Norðmenn strax innkaup sín í brottfararverslun á Keflavíkurflugvelli. Eina ástæðan fyrir því að komuverslanir eru í fáum evrópskum nágrannaríkjum okkar er að innan Evrópusambandsins er ekki  heimilt að bjóða upp á tollfrjálsa verslun fyrir komufarþega. Á heimsvísu eru tollfrjálsar komuverslanir í tæplega þriðjungi allra landa.

Fríhöfnin er viðskiptavinur margra íslenskra birgja sem hefur þau áhrif að efla stöðu þeirra þegar að því kemur að semja um lægra innkaupsverð frá sínum birgjum. Samdráttur í viðskiptum Fríhafnarinnar gætu því gert það að verkum að samningsstaða þessara íslensku birgja myndi versna sem gæti leitt af sér hærra vöruverð til íslenskra smásala.

Markaðsstarf Fríhafnarinnar er afar takmarkað og miðast að því að kynna vörur og þjónustu félagsins fyrir erlendum ferðamönnum sem annaðhvort eru á leiðinni til landsins eða eru að skoða ferðir til landsins. Auglýsingar innan flugstöðvarinnar tala þannig eingöngu til fólks sem er á ferðalagi og eru nú þegar mögulegir viðskiptavinir Fríhafnarinnar.

Fríhöfnin hefur aldrei boðið upp á netsölu. Hægt er að láta taka frá vörur sem síðan eru sóttar til að spara farþega tíma og fyrirhöfn. Farþegi greiðir fyrir vöruna þegar hún er sótt, en það hefur ekki verið í boði að aðrir en þeir sem um Fríhöfnina fara skipti við hana. Byrjað var að bjóða upp á þessa þjónustu fyrir nokkrum árum því hún er í boði hjá öllum helstu samkeppnisaðilum Fríhafnarinnar á öðrum flugvöllum. Í komuverslun er panta og sækja þjónustan mest nýtt til að panta áfengi. Viðskipavinir eru þannig að spara sér tíma og fyrirhöfn og tryggja sér þá vöru sem þeir vilja kaupa. Frumvarp sem bannar þessa þjónustu í komuverslun mun líklega leiða til þess að a.m.k. hluti þessara viðskiptavina verslar á þeim flugvelli sem flogið er frá.

Allur hagnaður af Fríhöfninni fer í uppbyggingu á Keflavíkurflugvelli. Á síðasta ári skilaði Fríhöfnin rúmlega 4 milljörðum til Isavia og eigenda þess, ríkisins, með húsaleigu, veltutengingu, áfengis- og tóbaksgjaldi og öðrum sköttum.

Fríhafnarverslun er almennt í sókn á flugvöllum í Evrópu þar sem hækkandi rekstrarkostnaður flugvalla gerir það að verkum að flugvellir leita sífellt leiða til að auka óflugtengdar tekjur. Tollfrjálsar komuverslanir á flugvöllum voru meðal annars settar upp til þess að draga úr flutningi á þungum varningi, t.d. áfengi, með farþegaflugi og til þess að færa verslun sem færi annars fram erlendis inn í landið.