Hoppa yfir valmynd
28.5.2015

Vegna úrskurðar úrskurðarnefndar upplýsingamála

Úrskurðarnefnd upplýsingamála hefur í tveimur úrskurðum sínum gert Isavia að afhenda fyrirtækjum sem tóku þátt í forvali um leigu á verslunar- og veitingasvæði í Flugstöð Leifs Eiríkssonar viðkvæm gögn sem innihalda viðskipta- og fjárhagsupplýsingar um aðra þátttakendur.
 
Að mati Isavia er um að ræða mjög viðkvæm gögn sem ber að gæta trúnaðar um þar sem þau innihalda upplýsingar er varða mikilvæga fjárhags- og viðskiptahagsmuni. Þeirra á meðal eru ítarlegar tölulegar upplýsingar, viðskiptaáætlanir og samninga fyrirtækjanna við aðra. Isavia metur það svo að með úrskurðinum sé félaginu gert að afhenda gögn sem óheimilt sé að afhenda með hliðsjóna af 10 gr. samkeppnislaga.
 
Að mati Isavia eru jafnframt verulegir annmarkar á úrskurði nefndarinnar þar sem félaginu er gert að afhenda gögn sem eru sambærileg við önnur gögn sem nefndin undanskilur afhendingu auk þess sem við meðferð málsins hafi verið farið á svig við ýmsar grunnreglur stjórnsýslulaga.  
 
Í ljósi þessa hefur félagið óskað eftir því að nefndin endurskoði þessa ákvörðun eða fallist á frestun réttaráhrifa hennar svo bera megi úrskurðinn undir dómstóla.