Hoppa yfir valmynd
13.6.2023
Veitingastaðurinn Jómfrúin opnar á Keflavíkurflugvelli

Veitingastaðurinn Jómfrúin opnar á Keflavíkurflugvelli

Það er mikið ánægjuefni að segja frá því að Jómfrúin hefur fært út kvíarnar og nú opnað einnig á Keflavíkurflugvelli. Margir þekkja Jómfrúnna úr miðborg Reykjavíkur þar sem staðurinn hefur verið rekinn óslitið í 25 ár. Nú hefur staðurinn bæst við veitingaflóruna á flugvellinum og ferðalangar geta fengið sér ekta danskt smurbrauð fyrir flugið. 

Á Jómfrúnni er hægt að setjast niður á huggulegan stað sem svipar til móðurstaðarins í Reykjavík og njóta veitinga. Jómfrúin býður farþegum upp á fjölbreyttan matseðil, blandaðan íslenskri og skandinavískri matargerð. Á matseðli er ekta danskt smurbrauð, úrval af bjór, snöpsum og fleira til. Eins og þörf er á flugvöllum verður líka hægt að fá fljótlegri kosti og grípa með sér tilbúið smubrauð á leið í flug.

„Það eru mjög spennandi tímar framundan hjá Jómfrúnni. Ég hef lengi haft mikinn áhuga á rekstri á flugvellinum og það er mín skoðun að veitingastaður eins og Jómfrúin eigi mjög vel heima í þessu flugvallarumhverfi. Undanfarin ár hef ég fylgst með nýjum áherslum, bæði á Kastrup flugvelli og Gardermoen, og mér finnst það flott nálgun að upplifun fólks af borginni sem það heimsækir geti teygt sig til flugvallarins. Keflavíkurflugvöllur er aðalgáttin að Íslandi en völlurinn er einnig hliðið að Reykjavík, þar sem minn staður hefur starfað með stolti í bráðum 28 ár. Við Jómfrúarfólk hlökkum til að bjóða flugvallargestum upp á hina heilögu þrenningu; smubrauð, öl og snaps,“ segir Jakob E. Jakobsson, eigandi Jómfrúarinnar.

Það er alþjóðafyrirtækið SSP sem sér um rekstur Jómfrúarinnar á Keflavíkurflugvelli en fyrirtækið sérhæfir sig í rekstri veitingastaða á flugvöllum og rekur yfir 2.600 slíka staði víða um heim.

„Við hjá SSP erum gríðarlega ánægð með að standa að opnun Jómfrúarinnar á Keflavíkurflugvelli. Að okkar mati er hún virkilega góð viðbót við framboðið sem fyrir er á flugvellinum. Við vonumst til þess að flugfarþegar grípi tækifærið til að hefja fríið enn fyrr en ella og komi sér fyrir í notalegu umhverfi sem margir þekkja nú þegar, frá Jómfrúnni í miðborginni.“ segir Jón Haukur Baldvinsson, framkvæmdastjóri SSP á Íslandi.

Veitingastaður Jómfrúarinnar hefur opnað á flugvellinum við mikinn fögnuð ferðalanga og staðsettur á verslunar- og veitingasvæði Keflavíkurflugvallar.