Hoppa yfir valmynd
28.10.2016
Vel heppnaður samráðsfundur um deiliskipulag – hægt að skila inn ábendingum til 15. nóvember

Vel heppnaður samráðsfundur um deiliskipulag – hægt að skila inn ábendingum til 15. nóvember

Elín Árnadóttir, aðstoðarforstjóri Isavia. 

Isavia hélt samráðsfund um drög að nýju deiliskipulagi fyrir austur- og vestursvæði Keflavíkurflugvallar 25. október síðastliðinn. Fundurinn var haldinn í Hljómahöll í Reykjanesbæ og um 80 manns sóttu hann. Uppsetningin var þannig að fyrst var deiliskipulagið kynnt og svo var skipt í umræðuhópa um mismunandi efni. Mjög góðar umræður sköpuðust og fjöldi gagnlegra ábendinga kom fram í hópavinnunni. Deiliskipulaginu er ætlað að skilgreina og útfæra byggðarmynstur og umferðarflæði svæðisins og afmarka byggingarreiti. Uppbygging með tilliti til þarfa flugtengdrar starfsemi er skipulögð og fjölbreyttum atvinnulóðum á svæðinu gerð skil í samræmi við aðalskipulag og þróunaráætlun flugvallarins.

Guðný María Jóhannsdóttir fór yfir hugmyndir um Aerotropolis og flughafnarborg. 
Fulltrúar Hornsteina arkitekta kynntu deiliskipulagið. 

Elín Árnadóttir aðstoðarforstjóri Isavia opnaði fundinn og sagði frá því hvernig skipulagsvinnan færi fram og um hvað fundurinn snerist. Guðný María Jóhannsdóttir aðstoðarframkvæmdastjóri Þróunar og stjórnunar hjá Isavia fór yfir hugmyndir um flughafnarborg, Airport City, svæði sem nær til flugvallarins, flugstöðvarinnar, fraktsvæða, skrifstofubygginga, verslunar, þjónustu og hótela – í raun allrar þeirrar þjónustu sem hagnast mest af því að vera tengd alþjóðaflugvelli með öflugar flugtengingar. Guðný fór einnig yfir það sem kallað er Aerotropolis en flughafnarborgin er oft kölluð hjartað í Aerotropolis, sem er allt þéttbýlið sem myndast í kringum flugvöllinn og nýtir flugtengingar til að öðlast samkeppnislega sérstöðu. Hún tók dæmi um flugvelli sem hafa markað sér skýra stefnu í skipulagi flughafnarborga, tækifærin sem skapast við skýra stefnumótun í þessum efnum og hvað samfélagið í kringum flugvöllinn getur hagnast á því. Fulltrúar Hornsteina arkitekta kynntu svo deiliskipulagsdrögin, áður en fundargestum var skipt upp í hópa þar sem ræddar voru hugmyndir og ábendingar hvers hagsmunahóps.

Deiliskipulagsdrögin er að finna hér og stendur forkynning yfir til 15. nóvember 2016. Á meðan á forkynningartímabili stendur er hægt að koma ábendingum og fyrirspurnum til skipulagsfulltrúa Keflavíkurflugvallar á [email protected]

Um 80 manns sóttu fundinn. 

Fundargestum var skipt upp í vinnuhópa sem ræddu hvern þátt skipulagsins.