
Vel heppnuð flugslysaæfing í Grímsey
Flugslysaæfing var haldin í Grímsey í dag þar sem æfð voru viðbrögð við ímynduðu flugslysi. Fjöldi viðbragðsaðila auk heimamanna tók þátt í æfingunni sem var vel heppnuð. Flugslysaæfingar Isavia eru almannavarnaæfingar og eru jafnan með stærstu hópslysaæfingum sem haldnar eru ár hvert og mikilvægar heildarviðbragðskerfi Íslands hvort sem um flugslys eða önnur hópslys er að ræða. Frá árinu 1996 hefur Isavia haldið yfir 40 flugslysaæfingar.
Æfðar eru björgunar- og slökkviaðgerðir, greining og aðhlynning slasaðra auk umönnunar óslasaðra og aðstandenda. Auk þess er áhersla lögð á samhæfingu vegna flutnings slasaðra, boðunarkerfi, stjórn, samhæfingu, fjarskipti, rannsókn á vettvangi og fleira.
Um tvær til fjórar æfingar eru haldnar ár hvert, en stór flugslysaæfing er haldin á hverjum flugvelli á fjögurra ára fresti. Æfingarnar byggja á flugslysaáætlun sem gerð hefur verið fyrir hvern flugvöll. Að æfingu lokinni eru viðbrögð rýnd og kannað hvað var gert vel og hvað mætti bæta.
Fjöldi viðbragðsaðila taka þátt í æfingunum, meðal annarra Isavia, almannavarnardeild ríkislögreglustjóra, slökkvilið, lögregla, heilbrigðisstofnanir, sjúkraflutningar, björgunarsveitir, Rauði krossinn, Landhelgisgæslan, Neyðarlínan og prestar.
Um flugslysaæfingar Isavia: https://www.isavia.is/fyrirtaekid/um-isavia/samfelag-og-umhverfi/samfelag/flugslysaaefingar
Þátttakendur í æfingunni í Grímsey komu úr ýmsum áttum:
Starfsmenn Isavia á flugvellinum
Starfsmaður Norlandair
Slökkvilið Akureyrar í Grímsey
Björgunarsveitin Sæþór í Grímsey
Aðgerðastjórn á Akureyri
Áhöfn björgunarskipsins Sigurvins á Siglufirði
Lögregla
Landhelgisgæslan
Greiningarsveit Sjúkrahúss Akureyrar
Íbúar Grímseyjar