Hoppa yfir valmynd
27.4.2011

Verðlaun til flugumferðarstjóra á Íslandi

Flugumferðarstjórar á Íslandi hlutu æðstu viðurkenningu er IFATCA Alþjóðasamtök félagasamtaka flugumferðarstjóra, veita fyrir framúrskarandi fagmennsku (outstanding professionalism) árið 2010.  Verðlaunin eru veitt fyrir afrek þar sem einstaklega fagleg vinnubrögð eru viðhöfð í flugumferðarstjórn. Á ráðstefnu haldin í Amman, Jórdaníu dagana 10-15 apríl síðastliðinn var þessi viðurkenning veitt íslenskum flugumferðarstjórum fyrir einstakt afrek meðan á Eyjafjallajökulsgosinu stóð.  

Dagana 6-11 maí 2010 unnu flugumferðarstjórar í Flugstjórnarmiðstöðinni í Reykjavík alla flugumferð er fór yfir Atlantshafið.  En sú umferð skiptist venjulega milli fjögurra flugstjórnarmiðstöðva.  Öll flugumferðin flaug yfir og norður af Íslandi og voru fyrri umferðarmet bætt á hverjum degi þar til 11 maí.  
Þann 11. maí flugu 1019 flugvélar gegnum íslenska flugstjórnarsvæðið á 24 klst en metið fyrir 6. maí var 562 vélar.  Þá eru ekki taldar vélar sem fóru frá eða lentu á flugvöllum innan flugstjórnarsvæðisins.  Þess má geta að íslenska flugstjórnarsvæðið er annað stærsta flugstjórnarsvæðið í heiminum, 5,4 milljón ferkílómetrar og tekjur vegna alþjóðaflugþjónustu fyrir árið 2010 voru 3 milljarðar.

Þessa daga voru allir flugumferðarstjórar á vakt og allar vinnustöður flugstjórnarmiðstöðvarinnar mannaðar.  Flugumferðarstjórarnir, fluggagnafræðingar, starfsmenn Flugfjarskipta og stoðdeildir lögðu gríðarlega vinnu á sig til þess að hægt væri að sinna þessari umferð og var það sérstaklega minnistætt að allir lögðust á eitt og engin skoraðist undan, sýndu starfsmenn einstaka ósérhlífni þessa daga.  Þetta er einstakur heiður fyrir flugumferðarstjóra á Íslandi.