Hoppa yfir valmynd
19.3.2015
Viðbúnaður hjá Flugstjórnarmiðstöðinni vegna sólmyrkvans í fyrramálið

Viðbúnaður hjá Flugstjórnarmiðstöðinni vegna sólmyrkvans í fyrramálið

Á morgun, föstudaginn 20. mars um kl. 09:37 verður sólmyrkvi sem sést vel frá Íslandi. Sólmyrkvi verður þegar tunglið gengur milli sólar og jarðar svo tunglið myrkvar sólina að hluta til eða í heild frá jörðu séð.
 
 
 
 
Í Reykjavík myrkvast tæplega 98% sólarinnar en á Austurlandi yfir 99%. Þetta er langmesti myrkvi sem sést hefur frá Íslandi í 61 ár eða frá almyrkvanum árið 1954.
 
Ferill almyrkvans 20. mars mun liggja í gegnum Færeyjar og Svalbarða og á Norðurpólinn, þvert í gegnum íslenska flugstjórnarsvæðið og hafa fjölmörg flugfélög óskað eftir að fá að fljúga ákveðinn feril fyrir austan land til að ná almyrkvanum.
 
Flugstjórnarmiðstöðin í Reykjavík verður með viðbúnað vegna sólmyrkvans að morgni 20. mars og munu 8 flugumferðarstjórar sinna þessum flugvélum í stað tveggja flugumferðarstjóra eins og vaninn er í þessum hluta svæðisins á þessum tíma dags. Skipulag vegna sólmyrkvans hefur verið í höndum Árna Baldurssonar og Steinunnar Örnu Arnardóttur flugumferðarstjóra og er nú búið að tryggja að allir viðskiptavinir flugstjórnarmiðstöðvar sem vilja verða vitni að þessu einstaka og sjaldgæfa sjónarspili geti gert það. 15-20 flugvélar hafa lagt inn flugplan sérstaklega vegna sólmyrkvaflugs en auk þess er búist við því að flugvélar í áætlunarflugi nýti tækifærið og fljúgi innan þess svæðis sem algjör almyrkvi sést.
 

Á myndinni má sjá það svæði sem afmarkað er fyrir sólmyrkvaflugið. Leitað var til aðstandenda Stjörnufræðivefsins til þess að afmarka vel þann stað innan íslenska flugstjórnarsvæðisins sem sólmyrkvinn er mestur.