Hoppa yfir valmynd
1.10.2021
Viðbygging við Akureyrarflugvöll boðin út að nýju

Viðbygging við Akureyrarflugvöll boðin út að nýju

Isavia hefur óskað eftir tilboðum í viðbætur og breytingar á flugstöðinni á Akureyrarflugvelli. Útboðslýsing hefur verið gefin út á útboðsvef Isavia. Tilboð verða opnuð 1. nóvember næstkomandi.

Þetta er í annað sinn sem verkefnið er boðið út. Þá barst aðeins eitt tilboð í verkið. Því var hafnað þar sem það reynist talsvert yfir kostnaðaráætlun.

Verkefnið felur í sér viðbyggingu við núverandi flugstöð og breytingu á núverandi húsnæði flugstöðvarinnar og nánasta umhverfi.

 „Þetta er umfangsmikið verkefni,“ segir Sigrún Björk Jakobsdóttir, framkvæmdastjóri Isavia Innanlandsflugvalla. „Hér er um að ræða 1.100 fermetra viðbyggingu við flugstöðina. Heildarstærð flugstöðvarinnar að verki loknu verður 2.700 fermetrar. Þar verður góð aðstaða fyrir toll og lögreglu, fríhöfn og veitingastaður. Áætlað er að heildarverkefninu verði lokið síðsumars 2023.“

Fyrsta skóflustunga að viðbyggingunni var tekin í júní síðastliðnum. „Við bíðum spennt eftir því að verkefnið fari af stað og hlökkum til að sjá hvaða öflugu tilboð berist til okkar í þessu nýja útboði,“ segir Sigrún. „Nú er aðeins tæplega eitt og hálft ár er í löngu tímabærar breytingar á flugstöðinni sem tryggja enn betur gott ferðalag og bætta aðstöðu fyrir okkar viðskiptavini.“