Hoppa yfir valmynd
9.10.2019
Viðurkenning fyrir þjónustu við farþega á Keflavíkurflugvelli

Viðurkenning fyrir þjónustu við farþega á Keflavíkurflugvelli

Alþjóðasamtök flugvalla (Airports Council International – ACI) veitti Keflavíkurflugvelli fyrr á þessu ári verðlaun í flokki Evrópskra flugvalla með 5-15 milljónir farþega fyrir bestu upplifun viðskiptavina árið 2018. Verðlaunin eru byggð á árlegum niðurstöðum úr þjónustukönnun meðal brottfarafarþega sem nefnist „Airport Service Quality“ (ASQ). Keflavíkurflugvöllur var meðal 20% efstu flugvalla í sínum stærðarflokki í Evrópu fyrir heildaránægju með flugvöll og hlaut því verðalaun. Skor Keflavíkurflugvallar var 4,20 (á skalanum 1-5) sem skilaði honum í 4.sæti af 35 flugvöllum.

Það var Hildur Norðfjörð, sérfræðingur í markaðsrannsóknum á Viðskiptasviði Keflavíkurflugvallar, sem veitti verðlaununum móttöku á ráðstefnu ACI í Indónesíu dagana 2. til 5. september síðastliðinn.

Þjónustukönnunin (ASQ – Airport Service Quality) er framkvæmd á 346 helstu flugvöllum heims, þar af á 114 flugvöllum í Evrópu. Farþegar svara spurningum um gæði 33 þjónustuþátta auk þess sem spurt er um heildaránægju með flugvöll. Keflavíkurflugvöllur hefur jafnan verið í hópi bestu evrópsku flugvallanna frá því að hann tók fyrst þátt í könnuninni árið 2004. Keflavíkurflugvöllur hefur í þrígang verið í fyrsta sæti í sínum stærðarflokki, þ.e. árin 2009, 2011 og 2014.

Ráðstefnan bar yfirheitið „One airport community; many passenger journeys“. Á ráðstefnunni var farið yfir ASQ könnunina með spurningalista og úrvinnslu að leiðarljósi; umræðuvettvangur var meðal flugvalla sem taka þátt í ASQ könnuninni þar sem þekking frá mismunandi flugvöllum er deilt og að lokum var ráðstefna þar sem sérfræðingar á sínu sviði ræddu um mikilvægi þjónustuupplifunar á flugvöllum og áskoranir fyrir næstu ár.