Hoppa yfir valmynd
29.8.2021
Vinnustöðvunum flugumferðarstjóra aflýst - nýr kjarasamningur undirritaður

Vinnustöðvunum flugumferðarstjóra aflýst - nýr kjarasamningur undirritaður

Laugardaginn 28. ágúst undirrituðu Samtök atvinnulífsins, fyrir hönd Isavia, og Félag íslenskra flugumferðarstjóra (FÍF) nýjan kjarasamning sem gildir til 1. október 2023. Flugumferðarstjórar hafa því aflýst vinnustöðvunum sem höfðu verið boðaðar á Keflavíkurflugvelli 31. ágúst og Akureyrar- og Reykjavíkurflugvelli 3. september.

Samningafundurinn, sem lauk með undirritun kjarasamningsins, stóð í 27 klukkustundir með fundarhléi frá kl. 4 aðfaranótt laugardagsins til kl. 11 á laugardagsmorguninn. Alls hafa verið haldnir 18 fundir í deilunni hjá ríkissáttasemjara.

FÍF mun nú á næstu dögum kynna samninginn fyrir félagsmönnum og síðan verður kosið um hann.