Hoppa yfir valmynd
20.12.2017
Wizz Air hefur flug milli Íslands og London

Wizz Air hefur flug milli Íslands og London

Ungverska flugfélagið Wizz Air tilkynnti í dag um nýja flugleið milli Keflavíkurflugvallar og Luton flugvallar í Lundúnum. Flugið hefst í apríl 2018 og verður til að byrja með fjórum sinnum í viku en frá september hyggst félagið fljúga daglega. Með Wizz verða því fimm flugfélög sem fljúga að sumri til Lundúna og sjö félög á veturna.
 
Wizz Air sem er stærsta lággjaldaflugfélag Mið- og Austur-Evrópu, hóf flug til Keflavíkurflugvallar í júní 2015. Lundúnir eru tíundi áfangastaður flugfélagsins frá Keflavíkurflugvelli og árið 2018 mun félagið bjóða 500.000 flugsæti frá flugvellinum.
 
Fyrsta árið hóf félagið flug til fjögurra áfangastaða frá Keflavíkurflugvelli, til Gdansk í Póllandi, Búdapest í Ungverjalandi, Varsjár í Póllandi og Vilníus í Litháen. Síðan þá hafa bæst við Poznan, Wroclaw og Katowice í Póllandi, Prag í Tékklandi og Ríga í Lettlandi.  
 
Gabor Vasarhelyi, samskiptastjóri Wizz Air: Við erum hæstánægð með að tilkynna tíundu flugleiðina frá Íslandi. Flug frá Keflavíkurflugvelli til Luton flugvallar stendur nú til boða á okkar lága verði og vonumst við til að Ísland njóti góðs af straumi ferðamanna frá Bretlandi. Einnig erum við viss um að Íslendingar muni kunna að meta að nýta okkur góðu þjónustu og góða verð til að skreppa til London.
 
Hlynur Sigurðsson, framkvæmdastjóri viðskiptasviðs Keflavíkurflugvallar: Við erum gríðarlega ánægð með hraðan vöxt Wizz Air á Keflavíkurflugvelli og að fá fimmta flugfélagið í London-flugið. Samkeppnin er sannarlega mikil og við sjáum það á verðinu sem farþegum býðst á flugi milli Íslands og London. Síðasta sumar voru ferðir til London sjö á dag en næsta vetur verður hægt að velja úr 11 flugferðum til höfuðborgar Englands á hverjum degi. Það má því sannarlega segja að búið sé að leggja loftbrú til borgarinnar.