Hoppa yfir valmynd
4.5.2016
WOW air hefur flug til Montréal

WOW air hefur flug til Montréal

Í dag hóf WOW air áætlunarflug til Montréal og 11. maí mun félagið fljúga fyrsta flug sitt til Toronto. Flogið verður allan ársins hring til þessara kanadísku borga. Vegna mikillar eftirspurnar var tíðni til bæði Montréal og Toronto aukin og jómfrúarflugum flýtt um viku til beggja áfangastaða. Samkvæmt upphaflegri áætlun átti að fljúga fjórum sinnum í viku til Montréal en nú verður flogið fimm sinnum í viku. Flogið verður til Toronto sex sinnum í viku en upphafleg áætlun var fjögur flug á viku.

Montréal er mikil menningar- og matarborg með frönsku ívafi en hún er önnur stærsta borg Kanada á eftir Toronto og níunda stærsta borg Norður-Ameríku. Þjóðtungan er franska og borgin er stærsta frönskumælandi borg í heimi að París undanskilinni. Flestir íbúar Montréal eru tvítyngdir og tala ensku og frönsku og skipta yfir þegar svo á við. Borgin er miðstöð menningar í Kanada og sameinar norður-ameríska og evrópska menningu. Þar er fjörugt leikhúslíf, hátíðir af ýmsum toga og heilu hverfin sem listamenn hafa lagt undir sig. Montréal er heimaborg hins fræga sirkus, Cirque du Soleil og er Formula 1 kappakstur haldinn í borginni árlega.

Í tilefni af fyrsta fluginu klipptu Skúli Mogensen forstjóri WOW air og Hlynur Sigurðsson framkvæmdastjóri Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar á borða.