Hoppa yfir valmynd
30.10.2013
WOW air hélt upp á flugrekstrarleyfi sitt með farþegum í Flugstöð Leifs Eiríkssonar

WOW air hélt upp á flugrekstrarleyfi sitt með farþegum í Flugstöð Leifs Eiríkssonar

Hlynur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar og Skúli Mogensen, forstjóri WOW klipptu á borðann í morgun.

Í dag, 30. október, fór WOW air jómfrúarflug sitt sem eftir að hafa fengið afhent formlegt flugrekstrarleyfi frá Samgöngustofu. Fyrsta flugið fór til Kaupmannahafnar og haldið var upp á þennan áfanga  með farþegum í flugstöðinni þar sem boðið var upp á morgunhressingu. Það eru um 30 ár eru liðin síðan flugrekstrarleyfi var veitt síðast til handa félagi sem stundar áætlunarflug til og frá Íslandi. Ekki er nema tæplega eitt og hálft ár síðan WOW fór sitt fyrsta flug, en á þeim tíma hefur það stækkað mikið og gert er ráð fyrir að farþegar í ár verði um 450 þúsund.

„Afhending flugrekstrarleyfisins eru tímamót í flugsögu Íslands. Ég er stoltur af þessum áfanga sem er hornsteinn í áframhaldandi vexti flugfélagsins. En ég er fyrst og fremst þakklátur öllu því kraftmikla fólki sem starfar hjá WOW air og hefur gert WOW að veruleika. Einnig er ég þakklátur fyrir þær frábæru móttökur sem við höfum fengið frá íslensku þjóðinni frá fyrsta degi“ segir Skúli Mogensen forstjóri og stofnandi WOW air.

Stefna á 700 þúsund farþega á næsta ári

Félagið hefur stækkað jafnt og þétt frá fyrsta flugi þess í maí 2012 en það ár flaug félagið með um 90 þúsund farþega, núna í ár verður farþegafjöldi um 450 þúsund og stefnt er að á næsta ári að félagið fljúgi með yfir 700 þúsund farþega. Vöxtur WOW air hefur verið mikill en fyrsta sumarið rak félagið tvær vélar en næsta sumar mun flugfélagið reka fimm vélar.

WOW air hyggst fljúga til 17 áfangastaða bæði í Evrópu og Norður Ameríku frá næsta vori.