Hoppa yfir valmynd
12.7.2023
Yfir 860 þúsund farþegar um Keflavíkurflugvöll í júní

Yfir 860 þúsund farþegar um Keflavíkurflugvöll í júní

Í júní áttu 861.130 farþegar leið um flugvöllinn. Er það 25% fjölgun frá sama tíma í fyrra og heldur meira en farþegaspár gerðu ráð fyrir.

Flogið var til 78 áfangastaða og voru þeir vinsælustu  Kaupmannahöfn, New York, London, París og Boston.

Brottfarir Íslendinga voru tæplega 55 þúsund eða 77% af því sem þær mældust árið 2018 þegar mest var.

Samkvæmt talningu frá Ferðamálastofu voru brottfarir erlendra farþega frá landinu um Keflavíkurflugvöll um 233 þúsund í nýliðnum júní. Er hér um að ræða álíka margar brottfarir og mældust í júní metárið 2018.

Flestar brottfarir í júní voru tilkomnar vegna Bandaríkjamanna eða um 43,3%. Í öðru sæti voru brottfarir Þjóðverja eða 7,6% af heild. Þar á eftir fylgdu Pólverjar, Frakkar, Hollendingar og Spánverjar.