Hoppa yfir valmynd
1.11.2013

Yfirlýsing Isavia vegna úrskurðar Samkeppniseftirlitsins

Isavia hefur borist úrskurður Samkeppniseftirlitsins vegna samræmdrar úthlutunar afgreiðslutíma flugvéla á Keflavíkurflugvelli. Ekki hefur gefist tími til þess að rýna úrskurðinn í heild en samantekt á niðurstöðum benda til þess að félaginu sé ætlað að grípa til ráðstafana sem það telur sig ekki hafa valdheimildir til. Isavia er ekki úthlutunaraðili afgreiðslutíma áætlunarflugvéla á Keflavíkurflugvelli heldur fer úthlutunin fram í samræmi við reglur evrópska efnahagssvæðisins sem teknar voru upp hér á landi árið 2006. Úthlutunin er framkvæmd af óháðum alþjóðlegum aðila og telur Isavia óheimilt að grípa inn í með þeim hætti sem Samkeppniseftirlitið krefst. Mun Isavia væntanlega áfrýja úrskurði Samkeppniseftirlitsins.
 
Samræming afgreiðslutíma miðar að því að tryggja stundvísi og hindra tafir við afgreiðslu og tekur bæði til flugvalla sem flogið er til og frá hverju sinni.  Samræming er viðhöfð þar sem afköstum flugvalla- eða flugstöðvamannvirkja eru takmörk sett en gert er ráð fyrir að jafnæðis sé gætt eftir skilgreindum reglum sem miða m.a. að því að nýliðun megi verða með skilgreindum hætti án þess að hallað sé á aðila sem fyrir eru. Úthlutun hefur þegar farið fram fyrir sumarið 2014.
 
Á Keflavíkurflugvelli eru afköst takmörkuð í stuttan tíma að morgni og síðdegis vegna takmarkaðs  fjölda flugvélastæða við flugstöðina. Fjölgun stæða krefst verulegrar stækkunar á flugstöðinni sem nú er í  undirbúningi.