Hoppa yfir valmynd

FLUGLEIÐSAGA

HEIMSÁLFA Á MILLI 

Hlutverk flugleiðsögusviðs er að veita íslenskum og erlendum loftförum flugleiðsöguþjónustu í íslenska flugstjórnarsvæðinu og á íslenskum flugvöllum. Algengt er að skipta flugleiðsöguþjónustu (ANS) í eftirfarandi grunnþjónustur:

  • Fjarskiptaþjónustu
  • Leiðsöguþjónustu
  • Kögunarþjónustu
  • Flugumferðarþjónustu (ATS)
  • Flugveðurþjónustu (MET)
  • Upplýsingaþjónustu flugmála (AIS)

ÍSLENSKA FLUGSTJÓRNARSVÆÐIÐ

Flugmálastjórn Íslands hefur veitt Isavia starfsleyfi til að sjá um flugleiðsögu og flugumferðarþjónustu í íslenska flugstjórnarsvæðinu á Norður-Atlantshafi fyrir hönd Íslands.

Íslenska flugstjórnarsvæðið er eitt af þeim stærri í heiminum, alls um 5,4 milljónir ferkílómetra og nær frá 61° norðlægrar breiddar upp á norðurpól og frá 0° lengdarbaug vestur fyrir Grænland. Flugleiðsöguþjónusta yfir Grænlandi er veitt samkvæmt sérstöku samkomulagi milli ríkisstjórna Íslands og Danmerkur.

Flugumferðarþjónustu á flugvöllum má skipta í tvo flokka, annars vegar flugstjórnarþjónustu (flugturnsþjónusta og aðflugsstjórnarþjónusta) og hins vegar flugupplýsingaþjónustu. Á Keflavíkur-, Reykjavíkur- og Akureyrarflugvelli er veitt flugstjórnarþjónusta, en á öðrum áætlunarflugvöllum er veitt flugupplýsingaþjónusta.

REKSTUR FLUGLEIÐSÖGUSVIÐS

Innan flugleiðsögusviðs starfa um 235 manns, þar af eru um 125 flugumferðarstjórar, 20 fluggagnafræðingar, 40 flugfjarskiptamenn, 35 tæknimenn og um 15 manns sem sinna öryggis- og gæðamálefnum, kennslu og þjálfun, rannsóknum og þróun og stjórnun.

Kostnaður flugleiðsöguþjónustu er að langstærstum hluta greiddur af notendagjöldum, annars vegar yfirflugsgjöldum og hins vegar af flugvöllum sem innheimta lendingargjöld. Samningurinn um Alþjóðaflugþjónustuna (Joint Financing Agreement) er aðildarsamningur 23 ríkja þar sem fjármögnun á flugleiðsöguþjónustu í íslenska flugstjórnarsvæðinu er skilgreind. Alþjóðaflugmálastofnunin, ICAO, hefur yfirumsjón með framkvæmd samningsins en árlega halda Isavia og Alþjóðaflugmálastofnunin upplýsingafundi með fulltrúum notenda þar sem farið er yfir þjónustuna og þróun kostnaðar.

Á Norður-Atlantshafi hafa fyrirtæki sem veita flugleiðsöguþjónustu með sér formlegt samráð undir hatti North Atlantic Systems Planning Group, NAT/SPG, sem er ein af nefndum Alþjóðaflugmálastofnunarinnar. Á þeim vettvangi er ákveðið hvernig þjónustunni skal háttað, fylgst með öryggis- og gæðamarkmiðum og þróun nýrrar tækni og aðferðafræði í flugleiðsögu. Samtök flugrekenda og fagfélaga taka einnig virkan þátt í því starfi