
Flugleiðsögusvið veitir flugstjórnarþjónustu á Keflavíkur-, Reykjavíkur- og Akureyrarflugvelli. Á þessum flugvöllum starfa flugumferðarstjórar sem eru starfsmenn flugleiðsögusviðs Isavia. Á öðrum áætlunarflugvöllum er veitt flugupplýsingaþjónusta og þar eru starfsmenn í flugturni sem tilheyra flugvalla- og mannvirkjasviði en ábyrgð þjónustunnar er hjá flugleiðsögusviði.
Flugumferðarþjónusta er veitt á eftirfarandi flugvöllum:
Staður | Þjónusta |
---|---|
Keflavíkurflugvöllur | ATC TSWR /APP (Radar) |
Reykjavíkurflugvöllur | ATC TSWR /APP (Radar) |
Akureyrarflugvöllur | ATC TSWR /APP (Radar) |
Egilsstaðaflugvöllur | AFIS |
Bíldudalsflugvöllur | AFIS |
Gjögurflugvöllur | AFIS |
Grímseyjarflugvöllur | AFIS |
Hornafjarðarflugvöllur | AFIS |
Ísafjarðarflugvöllur | AFIS |
Siglufjarðarflugvöllur | AFIS |
Vestmannaeyjaflugvöllur | AFIS |
Vopnafjarðarflugvöllur | AFIS |
Þingeyrarflugvöllur | AFIS |
Þórshafnarflugvöllur | AFIS |
Í flugturninum á Keflavíkurflugvelli starfar 31 flugumferðarstjóri. Á flugvellinum eru tvær flugbrautir. Brautirnar eru búnar CAT-II blindlendingaraðflugsbúnaði sem gefur 100 feta lágmarkshæð til lendingar úr tveimur stefnum og CAT-I blindlendingaraðflugsbúnaði sem gefur 200 feta lágmarkshæð úr tveimur stefnum. Á Keflavíkurflugvelli er staðsett aðflugsratsjá og þar er veitt ratsjárþjónusta. Aðflugsþjónusta að Reykjavíkurflugvelli er einnig unnin frá Keflavíkurflugvelli með sömu ratsjá.
Í flugturninum á Reykjavíkurflugvelli starfa 13 flugumferðarstjórar. Á flugvellinum eru þrjár flugbrautir og sex brottflugs- og aðflugsstefnur. Brautirnar eru búnar til blindaðflugs úr þremur stefnum. Í flugturninum á Akureyri starfa fimm flugumferðarstjórar. Á flugvellinum er ein flugbraut. Hún er búin til blindaðflugs úr báðum stefnum. Á Akureyrarflugvelli er veitt aðflugsþjónusta með ratsjá sem staðsett er á flugvellinum.
Í flugturnum á öðrum áætlunarflugvöllum þar sem veitt er flugupplýsingaþjónusta (AFIS) eru 1-5 starfsmenn á hverjum flugvelli. Millilandaflugvellir eru fjórir: Keflavíkur-, Reykjavíkur-, Akureyrar- og Egilsstaðarflugvöllur. Flugupplýsingaþjónusta er veitt á Egilsstöðum en flugstjórnarþjónusta á hinum þremur.