Hoppa yfir valmynd

Starfsemi Isavia

Isavia er opinbert hlutafélag sem annast rekstur, viðhald og uppbyggingu áætlunarflugvalla og lendingarstaða á Íslandi. Auk þess veitir félagið flugleiðsöguþjónustu í innanlands- og alþjóðaflugi yfir norðanverðu Norður-Atlantshafi.

Kjarnastarfsemi félagsins er þrískipt: Rekstur Keflavíkurflugvallar, flugleiðsöguþjónustu og annarra íslenskra flugvalla. Rekstrarskipan kjarnasviðanna er í eðli sínu mjög ólík. Keflavíkurflugvöllur er að fullu rekinn á viðskiptalegum forsendum sem þýðir að hann er sjálfbær. Rekstur annarra hérlendra flugvalla er ósjálfbær og grundvallast á samningi félagsins við innanríkisráðuneytið sem ákvarðar þjónustustig, rekstur og viðhald. Framlag ríkisins nemur um 70% af heildartekjum flugvallanna. Rekstur flugleiðsögu í efra loftrými yfir Norður-Atlantshafi grundvallast á samningi við 24 ríki um þjónustu og fjármögnun sem byggir g jaldtöku á kostnaðargrunni.

Dótturfélög Isavia eru fjögur og hafa hvert um sig mismunandi tilgang. Fríhöfnin selur tollfrjálsan varning á Keflavíkurflugvelli, Tern systems framleiðir hugbúnað fyrir flugleiðsögu, Domavia heldur utan um hluta af fasteignum Isavia og Suluk heldur utan um rekstur flugleiðsögu á Grænlandi.

Isavia rekur fjóra alþjóðaflugvelli, Keflavíkurflugvöll, Reykjavíkurflugvöll, Akureyrarflugvöll og Egilsstaðaflugvöll. Auk þeirra eru 10 lendingarstaðir fyrir reglubundið áætlunarflug innanlands. Félagið hefur einnig umsjón með 36 öðrum lendingarstöðum um land allt.

Á Keflavíkurflugvelli eru tvær flugbrautir sem eru 3.054 og 3.065 metrar að lengd. Á Reykjavíkurflugvelli eru tvær brautir, 1.567 og 1.230 metrar, á Akureyrarflugvelli ein 2.400 metra braut og á Egilsstaðaflugvelli ein braut sem er 2.000 metrar. Aðrir flugvellir og lendingarstaðir hafa 634 til 1.887 metra langar flugbrautir.