Hoppa yfir valmynd

Starfsemi Isavia

Isavia er opinbert hlutafélag sem annast rekstur, viðhald og uppbyggingu áætlunarflugvalla og lendingarstaða á Íslandi. Auk þess veitir félagið flugleiðsöguþjónustu í innanlandsflugi og alþjóðaflugi yfir norðanverðu Norður-Atlantshafi.

STEFNA ISAVIA

Starfsemi Isavia skiptir miklu máli fyrir þjóðarhag og starfsfólk félagsins leggur sig fram um að haga störfum sínum á öruggan og skilvirkan hátt í sátt við samfélagið. Mikilvægi starfseminnar og áherslur endurspeglast í stefnupíramída félagsins. 

STEFNUMÓTUN

Isavia, sem opinbert hlutafélag, starfar eftir lögum um starfsemina og eigandastefnu ríkisins. Stefna félagsins er mótuð af stjórn og framkvæmdaráði fyrirtækisins innan þess ramma. Lokið var við endurskoðun á stefnu félagsins árið 2018. Ákveðið var að skerpa á hlutverki, framtíðarsýn, gildum og stefnumiðum fyrirtækisins. Stefna var sett upp í stefnupíramída og stjórn samþykkti stefnuna um mitt árið eftir samráð við starfsmenn. Í samræmi við áherslurnar í starfsemi fyrirtækisins var samfélagsábyrgð tekin inn sem eitt af stefnumiðum félagsins. Stjórnendum og starfsfólki er ætlað að vinna eftir stefnu fyrirtækisins og ber framkvæmdaráð félagsins ábyrgð á framfylgd hennar.

Isavia hefur sett sér stuðningsstefnur í samræmi við heildarstefnu fyrirtækisins þar sem við á. Í gildi eru starfsmannastefna, stefna í samfélagsábyrgð, umhverfisstefna, gæðastefna, öryggisstefna, upplýsingaöryggisstefna, starfskjarastefna, markaðsstefna og áhættustefna. Að auki er unnið eftir jafnréttisáætlun, innkaupaháttum, siðareglum starfsmanna, siðareglum birgja og eigandastefnum fyrir Fríhöfnina og Tern. Framkvæmdastjórar mismunandi sviða bera ábyrgð á stuðningsstefnum eftir því sem við á. Setning og endurskoðun stuðningsstefna fer eftir formlegu verklagi þar um og eru þær samþykktar af forstjóra eða stjórn eftir því sem við á.

Ákvarðanir um daglegan rekstur Isavia, þ.m.t. málefni sem tengjast samfélagsábyrgð, er í höndum forstjóra og framkvæmdaráðs félagsins. Stjórn Isavia fylgist með málefnum tengdum málaflokknum og fjallar reglulega um málefni sem tengjast fjárhagsstöðu, uppbyggingaráformum, skipulagsmálum, þjónustu- og skilvirkni, mannauðsmálum, öryggi- og gæðamálum.

STARFSEMI

Kjarnastarfsemi félagsins er þrískipt: Rekstur Keflavíkurflugvallar, flugleiðsöguþjónustu og rekstur annarra íslenskra flugvalla. Rekstrarskipan kjarnasviðanna er í eðli sínu mjög ólík. Keflavíkurflugvöllur er að fullu rekinn á viðskiptalegum forsendum sem þýðir að hann er sjálfbær. Rekstur annarra íslenskra flugvalla er ósjálfbær og grundvallast á samningi félagsins við innanríkisráðuneytið sem ákvarðar þjónustustig þeirra, rekstur og viðhald. Framlag ríkisins nemur um 70% af heildartekjum þeirra. Rekstur flugleiðsögu í efra loftrými yfir Norður-Atlantshafi grundvallast á samningi við 24 ríki um þjónustu og fjármögnun sem byggir gjaldtöku á kostnaðargrunni.

Dótturfélög Isavia eru fjögur og hafa hvert um sig mismunandi tilgang. Fríhöfnin selur tollfrjálsan varning á Keflavíkurflugvelli, Tern Systems þróar hugbúnað fyrir flugleiðsöguþjónustu, Domavia heldur utan um hluta af fasteignum Isavia og Suluk heldur utan um rekstur flugleiðsöguþjónustu á Grænlandi. Aðalskrifstofur Isavia eru á Reykjavíkurflugvelli.

Isavia rekur fjóra alþjóðaflugvelli: Keflavíkurflugvöll, Reykjavíkurflugvöll, Akureyrarflugvöll og Egilsstaðaflugvöll. Auk þeirra eru níu lendingarstaðir fyrir reglubundið áætlunarflug innanlands. Félagið hefur einnig umsjón með 36 öðrum lendingarstöðum um land allt.


Fjöldi alþjóða­flugvalla
Fjöldi innanlands­flugvalla
Fjöldi lendingar­staða á Íslandi

Myndband um starfsemi Isavia