Hoppa yfir valmynd

Ávarp stjórnarformanns

Árið 2019 var sérstaklega viðburðaríkt hjá Isavia. Stöðugur vöxtur hafði verið í fjölda millilandafarþega frá árinu 2009 til 2018 – eða um ríflega fimmtung að meðaltali á ári. Dæmið snerist hratt við á síðasta ári, en þá fækkaði farþegum um 26%. Þann samdrátt má að stærstum hluta rekja til falls Wow Air í lok mars 2019 og kyrrsetningar á Boeing 737 MAX flugvélum Icelandair um svipað leyti.

Nýr forstjóri tók til starfa hjá félaginu á árinu 2019 og þeirri breytingu fylgdu breyttar áherslur. Skerpt var á starfseminni, með því að greina á milli þeirra ólíku starfsþátta sem reknir eru innan samstæðunnar og kalla nokkra nýja stjórnendur til verka. Á sama tíma var ráðist í breytingar á skipulagi Keflavíkurflugvallar með það að markmiði að færa þróun flugvallarins nær þörfum viðskiptavina ásamt því að auka mikilvægi þjónustuupplifunar í rekstri vallarins, bæði fyrir farþegana sjálfa og þau flugfélög sem nýta sér völlinn. Keflavíkurvöllur á í harðri samkeppni við erlenda velli og þarf því á öllu sínu að halda, ekki síst nú þegar harðnar á dalnum og alþjóðleg ferðaþjónusta er í uppnámi. Breytingarnar á vellinum og í fyrirtækinu í heild eru hannaðar til að auka viðnámsþróttinn í rekstrinum.

Í kjölfarið á falli Wow Air fyrir ári tóku við deilur um lagagrundvöll þess að stöðva flugvél vegna ógreiddra notendagjalda. Vélin sem um ræddi hafði verið í rekstri Wow Air en ekki í eign flugfélagsins. Héraðsdómari á Reykjanesi felldi úrskurð í málinu Isavia í óhag, án þess að fresta mætti réttaráhrifum þar til æðra dómsstig næði að fjalla um málið. Isavia hafði þar með ekki lengur tök á að halda flugvélinni og missti haldsréttinn á henni í lagadeilunni. Fyrri dómur Landsréttar í deilunni, sem þvert gegn dómi í héraði var Isavia í vil, náði af þessum sökum ekki fram að ganga. Isavia telur að úrskurður Héraðsdóms Reykjaness sé rangur og hefur því stefnt ríkissjóði vegna skaðabóta við óafturkræfa framkvæmd málsins, auk eiganda flugvélarinnar.

Keflavíkurvöllur á í harðri samkeppni við erlenda velli og þarf því á öllu sínu að halda, ekki síst nú þegar harðnar á dalnum og alþjóðleg ferðaþjónusta er í uppnámi

Til viðbótar við fækkun ferðamanna voru í byrjun ársins 2020 lagðar fjárhagslegar kvaðir á félagið frá eiganda þess, íslenska ríkinu. Breytingin er sú að fjárhagsleg ábyrgð á fjárfestingum og taprekstri á Egilsstaðaflugvelli fellur um hríð í skaut hlutafélagsins Isavia. Völlurinn á Egilsstöðum er mikilvægur og býður upp á góða uppbyggingarmöguleika. Það breytir ekki hinu, að völlurinn er fjárhagslega ósjálfbær og hluti af almenningssamgöngukerfis landsins. Þannig er hann eðlisólíkur Keflavíkurvelli, sem stendur undir sér, krefst mikillar uppbyggingar og á í harðri samkeppni við flugvelli í öðrum löndum. Þessi ráðstöfun mun veikja fjárhagslega stöðu Isavia og möguleika félagsins til áframhaldandi uppbyggingar á Keflavíkurflugvelli.

Í upphafi árs 2020 skapaðist veruleg óvissa vegna áhrifa Covid-19 veirunnar á ferðalög flugfarþega. Eins og staðan er núna er óljóst hver endanleg áhrif verða en það er þó ljóst að þau verða veruleg.

Þrátt fyrir allar þær áskoranir sem hér hafa verið nefndar eru stoðir félagsins styrkar. Isavia er vel í stakk búið til að takast á við versnandi ytri skilyrði. Mikilvægara er nú en oft áður að ekki sé gengið á fjárhagslegan styrk félagsins, með því að fela því bótalaust að leysa kostnaðarsöm mál, sem eru á forræði opinberra aðila.

Mig langar til að þakka forstjóra félagsins og framkvæmdastjórn fyrir vel unnin störf á þessum krefjandi tímum. Mikilvægt er að Isavia standi áfram undir þeim væntingum sem eru gerðar til þessa lykilfélags í íslenskri ferðaþjónustu og íslensku hagkerfi.


Orri Hauksson, stjórnarformaður Isavia